Mímir stendur nú fyrir nýrri nálgun í íslenskukennslu fyrir lengra komna í samstarfi við rithöfundinn Þórunni Rakel Gylfadóttur. Nú geta þau sem hafa orðið sæmilegan grunn í íslensku stundað nám hjá Mími þar sem til grundvallar er sérsamið bókmenntatengt námsefni.

Þórunn Rakel mun vera með tvö íslenskunámskeið hjá Mími tengt bókmenntum en til að útskýra það betur heyrðum við í höfundinum.

Árið 2021 kom út sagan Akam, ég og Annika eftir Þórunni Rakel og hlaut bókin Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og unglingabóka. Ári seinna kom út stytt útgáfa bókarinnar þar sem málfar var talsvert einfaldað og bókin stytt um heil 40%. „Þetta er nýlunda, ég veit hreinlega ekki hvort þetta hafi verið gert áður hér á Íslandi en texti bókarinnar var aðlagaður til að koma betur til móts við bæði nemendur á grunnskólaaldri og þau sem hafa ekki íslensku að móðurmáli,“ segir Þórunn Rakel.

Námskeiðin með Þórunni Rakel eru sett upp sem bókaklúbbur og er hægt að fara á námskeið sem fer yfir bókina Akam, ég og Annika og er á stigi B1 samkvæmt Evrópska tungumálarammanum og svo er annar bókaklúbbur þar sem lesnar verða smásögur eftir Þórunni Rakel og Berglindi Ernu Tryggvadóttur, og er það námskeið á stigi B2.

„Í þessum námskeiðum verður unnið að því að bæta orðaforða og færni í töluðu máli. Akam, ég og Annika er samtímasaga og því munu umræðurnar vera í takt við þá málnotkun sem á sér stað í nútímanum. Margt getur brunnið á fólki varðandi málefni líðandi stundar en það getur átt erfitt með að tjá sig þar sem fólk vantar orðaforðann og því eru þessi námskeið fullkomin til þess að bæta þar úr. Sagan skírskotar til nútímans,“ segir Þórunn Rakel.

„Það er kjörið tækifæri fyrir þau sem vilja virkilega bæta sig í íslensku að koma á þetta námskeið. Ég skrifaði þessa bók vegna væntumþykju minnar til íslenskrar tungu og vil endilega smita aðra af þeirri væntumþykkju,“ segir Þórunn Rakel að lokum.

Við hvetjum alla sem vilja bæta sig í íslensku að skrá sig á þessu frábæru námskeið. 

Skráning í Akam, ég og Annika bókaklúbbinn

 Skráning í bókaklúbbinn Smásögur og daglegt mál