Þessi glæsilegi hópur útskrifaðist í gær, 27. febrúar, úr íslenskunámskeiði hjá Mími. Námsleiðin heitir Að lesa og skrifa á íslensku og er íslenska á stigi 1 hægferð, alls 80 klukkustunda nám.

Í fornáminu er lögð áhersla á að byggja upp grunnorðaforða í íslensku í skilningi og talþjálfun. Nemendur fá einnig góða þjálfun í framburði á íslensku og æfa lestur og skrift.

Góð samvinna og gleði einkenndi þennan hóp auk mjög góðrar mætingar en allir sem hófu námið í janúar luku náminu. Þau eru tilbúin að halda áfram að læra og ætla mörg að fara á framhaldsnámskeið sem byrjar 10. mars nk.

Framhaldsnámskeiðið heitir Íslenska 2 og atvinnulífið – hægferð og er alls 98 klst. nám þar sem nemendur halda áfram að byggja upp orðaforða og þjálfa tal í íslensku með fjölbreyttum aðferðum auk þess sem þau fá fræðslu um íslenskt atvinnulíf.