Fimmtudagurinn 19. júní var hátíðlegur dagur hjá Mími símenntun þegar 24 nemendur útskrifuðust úr Menntastoðum Mímis. Útskriftarnemar, aðstandendur, kennarar og starfsfólk Mímis komu saman til að fagna útskrift og árangri nemenda.

Margrét Erla Björnsdóttir verkefnastjóri Menntastoða flutti ávarp ásamt Sólveigu Hildi Björnsdóttur framkvæmdastjóra Mímis.

„Það krefst hugrekkis að hefja nám á fullorðins aldri,“ sagði Sólveig Hildur í ávarpi sínu um leið og hún óskaði nemendum innilegar til hamingju með áfangann. „Mig langar að þakka ykkur það traust sem þið hafið sýnt Mími, kennurum og starfsfólki, með því að leyfa okkur að eiga hlutdeild í ykkar lífi.“

Fyrir hönd útskriftarnema flutti Ragnhildur Hreiðarsdóttir einlægt ávarp og nefndi hversu hvetjandi það væri að sjá framfarir í náminu og að vegferðin í Menntastoðum hefði mótað sjálfsmyndina og framtíðarsýnina. Ragnhildur þakkaði kennurum fyrir fagmennsku, þolinmæði og hvatningu allan þann tíma sem hún stundaði nám í Menntastoðum.

Menntastoðir er vinsæl námsbraut sem Mímir býður upp á og veitir fólki ný tækifæri á áframhaldandi námi eða nýjum atvinnutækifærum. Útskriftarnemar í ár eru flestir að taka næstu skref í námi og stefna á undirbúningsdeildir háskólanna; Bifröst, HR og Keili eða starfs-, iðn- og tækninám.

Við óskum öllum nýútskrifuðum nemendum innilega til hamingju og hlökkum til að fylgjast með þeim í framtíðinni.