Í vikunni útskrifuðust 13 nemendur úr Umönnunarsmiðju og íslensku 3 hjá Mími. Nemendurnir hafa lagt hart að sér og sýnt mikla elju í náminu.

Námstökin voru mjög fjölbreytt. Nemendur tóku meðal annars þátt í tónlistarsmiðju, hreyfismiðju og myndlistasmiðju þar sem þeir fræddust um hvernig hægt væri að nota skapandi greinar í umönnunarstörfum. Þeir fóru einnig í nokkrar skemmtilegar heimsóknir, t.a.m. í dagdvöl aldraðra, fyrirtæki á heilbrigðissviði og á safn ásamt því að læra íslensku hjá kennara sínum Hólmfríði Gestsdóttur.

Hluti námskeiðsins var einnig fjögurra daga starfsþjálfun en hjúkrunarheimilin sem nemendur unnu á gáfu þeim góðar umsagnir og lýstu ánægju sinni með vinnuframlag þeirra, fagmennsku og natni í starfi. Að starfsþjálfun lokinni fengu sumir nemendanna atvinnutilboð sem er flottur árangur og ber vitni um hæfni þeirra og vinnusemi. Starfsfólk Mímis þakkar vinnustöðum sem tóku á móti nemendum í vettvangsnám kærlega fyrir samstarfið.

Við óskum þessum hæfileikaríku einstaklingum innilega til hamingju með árangurinn og þökkum þeim fyrir að hafa valið að taka þátt í námskeiðinu. Við erum viss um að þau munu halda áfram á sinni góðu vegferð.

Þetta er í fyrsta skipti sem Umönnunarsmiðja var í boði hjá Mími og hefur námskeiðið nú þegar fest sig í sessi. Ný Umönnunarsmiðja er komin í sölu fyrir vorönn 2025.

Hér má sjá nokkrar myndir frá útskriftinni.