Nýverið fóru Sigurður Víkingur, nemandi í Menntastoðum hjá Mími og María Stefanía Stefánsdóttir, náms- og starfsráðgjafi hjá Mími í viðtal hjá K100. Þar fóru þau yfir það hvað Menntastoðir er og hvernig Menntastoðir hafa veitt fjölda fólks ný tækifæri í námi. Menntastoðir er nám fyrir einstaklinga 18 ára og eldri og veita einstaklingum inngöngu í undirbúningsdeildir háskólanna, Keili, HR og Bifröst. 

Sigurður er 24 ára og hóf nám í Menntastoðum í janúar. Hann langaði að klára menntunina sína en vissi ekki hvernig hann ætlaði að gera það. Honum fannst tilhugsunin um að fara í framhaldsskóla með 16 ára krökkum ekki vera heillandi og eftir að hafa leitað á netinu fór hann í viðtal hjá náms- og starfsráðgjafa hjá Mími sem hjálpaði honum að finna réttu leiðina.

„Áður en ég byrjaði var ég með mjög fína vinnu út á sjó og fyrrverandi ferillinn minn í námi var algjört lestarslys. Ég bara féll úr öllu. Þannig að ég hugsaði þetta er ekki að fara að ganga, þetta er risastór áhætta og ég er örugglega ekki að fara græða neitt á þessu, ég er að fara hætta í vinnunni minni og fara aftur í nám og ég hef aldrei verið góður námsmaður. En umhverfið í Mími er bara svo öðruvísi en þar sem ég hef verið áður. Þú ert bæði kominn með þennan andlega þroska og þú ert umkringdur af fólki sem er á þessu sama stigi að vilja klára námið,“ segir Sigurður Víkingur í viðtalinu á K100. 

Hér fyrir neðan er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni.