María Stefanía Stefánsdóttir, náms- og starfsráðgjafi hjá Mími, sagði frá Menntastoðum í Morgunútvarpinu á Rás 2 en námsbrautin, sem er fyrir 18 ára og eldri, er til þess gerð að opna leiðina til iðnnáms, stúdentsprófs eða inn í háskólabrýr. Menntastoðir hafa notið vinsælda meðal fullorðinna um árabil en námið má meta til allt að 50 eininga í framhaldsskóla.

Margir þeirra sem hefja nám hjá Mími eru að taka upp þráðinn á ný, jafnvel eftir margra ára hlé frá námi. Mikið er lagt upp úr persónulegri þjónustu við nemendur og náms- og starfsráðgjöf, sem er þeim endurgjaldslaus. Flestir sem skrá sig í Menntastoðir eru á aldrinum 25 til 35 ára, en fólk á öllum aldri sækir námið. En eiga það sameiginlegt að hafa lokið litlu eða engu námi á framhaldsskólastigi.

Námið tekur á grunnfögum íslensku, stærðfræði, ensku, dönsku og upplýsingatækni auk þess sem lögð er áhersla á að nemendur læri námstækni, efli sjálfstraust sitt og lífsleikni. Nemendur fá því mikinn stuðning við námið enda oft stórt skref að setjast aftur á skólabekk eftir kannski langt hlé frá námi. Margir þeirra hafa jafnvel ákveðið með sjálfum sér að þeir eigi ekki erindi í bóklegt nám.

Náms- og starfsráðgjafar eru ávallt til staðar og aðstoða, ásamt kennurum og öðru starfsfólki, nemendur við að komast á fulla ferð aftur í námi. Þá hafa kennararnir haldgóða reynslu af kennslu fullorðinna námsmanna. Enn fremur er mikið lagt upp úr samvinnu og stuðningi nemenda sjálfra og þeir skapi sér sín eigin lærdómssamfélög.

Hægt er að velja um tvær leiðir í Menntastoðum, staðnám eða fjarnám. Einnig er hægt að sækja Menntastoðir með stuðningi í íslensku sem hentar þeim sem hafa ekki íslensku sem móðurmál.

Skráningar í Menntastoðir standa nú yfir. Skoðaðu námið hér.

Panta spjall við náms- og starfsráðgjafa hér.

Hlusta má á viðtalið við Maríu Stefaníu nálgast hér á vef RÚV.