María Stefanía Stefánsdóttir, náms- og starfsráðgjafi hjá Mími kíkti í spjall til Kristínar á K100 í morgun til að ræða Menntastoðir hjá Mími.

Menntastoðir er vinsæl námsbraut þar sem fólk getur tekið upp þráðinn að nýju eftir hlé frá námi hafi það áhuga á að fara í áframhaldandi nám. Þessa dagana er verið að taka á móti skráningum í Menntastoðir en í boði er bæði fjarnám og staðnám. Fjarnámið hefst 20. ágúst en staðnámið 25. ágúst en vakin er athygli á að skráningarfrestur rennur út 18. ágúst.

„Menntastoðir er námsbraut fyrir fullorðið fólk, 18 ára og eldri, og þú getur hugsað um að þetta sé fyrsta skrefið að byrja að mennta sig eftir að maður hefur kannski flosnað upp úr framhaldsskóla, klárað ekki stúdentsprófið og vill fara að mennta sig og veit ekki hvar það á að byrja,“ segir María í viðtalinu.

María bætir við að ekki sé um stóran hóp að ræða sem Mímir tekur inn og er markmiðið að hafa færri en fleiri í bekk svo það sé hægt að sinna nemendum vel og veita góðan stuðning.

„Það er svolítið stressandi að byrja nám og taka fyrstu skrefin. Menntastoðir eru grunnám eða nám á framhaldsskólastigi. Þetta eru áfangar á öðru hæfnisþrepi sem þýðir að þá ertu að læra íslensku, stærðfræði, ensku og dönsku og þetta eru áfangarnir sem þú þarft, t.d. ef þú ert að fara í iðnnám þá eru þetta grunnáfangarnir sem þú þarft að klára,“ bætir María við.

María nefnir einnig í viðtalinu að hægt sé að sækja námið hvort sem er í fjarnámi eða staðnámi og unnt sé að klára það á einni önn sé vilji fyrir því. Að Menntastoðum loknum getur fólk fengið aðgang í háskólabrýr hjá HR, Keiii og Bifröst.

María mælir einnig mikið með að fólk komi í ráðgjöf hjá náms- og starfsráðgjöfum Mímis sem er öllum að kostnaðarlausu en þar er hægt að fá gott spjall og geta ráðgjafar Mímis hjálpað einstaklingum við að finna lausnir sem henta þeim.

Við mælum með að hlusta á viðtalið í heild sinni hér.