Menntastoðir er ein vinsælasta leiðin til undirbúnings fyrir háskólabrú, til stúdentsprófs og/eða réttinda í iðngrein. Mímir hefur á að skipa færum kennurum, góðu námsumhverfi og nauðsynlegum stuðningi fyrir nemendur. Menntastoðir eru fyrir 18 ára og eldri og vilja klára grunninn sem þarf til þess að halda áfram í frekara nám.

Starfsfólk Mímis þekkir mæta vel þann þröskuld sem margir nemendur þurfa að yfirstíga þegar þeir hefja nám að nýju, jafnvel eftir langt hlé frá námi. Oftar en ekki bera nemendur kvíðboga yfir því að takast á við stærðfræði á meðan aðrir telja sig ekki hafa færni til þess að læra. Þannig getur það vaxið fólki í augum að skrá sig í nám.

Stuðningur við að yfirstíga hindranir

Hjá Mími er starfsfólk sérþjálfað í að taka á móti nemendum og aðstoða þá við að stíga sín fyrstu skref í námi auk þess sem námstækni er kennd á námskeiðum. Þá eru náms- og starfsráðgjafar aðgengilegir öllum nemendum sem telja sig þurfa stuðning við að yfirstíga hindranir.

Starfsfólk Mímis kann fjöldann allan af sögum af nemendum sem hafa sigrast á óttanum við að takast á við stærðfræði, nemendum sem hafa öðlast færni í námstækni og/eða tekið stórstígum framförum við ritgerðasmíð. Oftar en ekki tekst nemendum að blómstra í námi eftir að hafa sigrað þær hindranir sem þeim hefur fundist vera óyfirstíganlegar, jafnvel árum saman. Sömu nemendur útskrifast frá Mími fullir sjálfstrausts til að takast ótrauðir á við ný verkefni hvort sem er í námi eða starfi.

Kennsluaðferðir fyrir fullorðið fólk

Kennsluaðferðir hjá Mími miða að þörfum fullorðinna námsmanna. Það skiptir máli hvaða aðferðum er beitt og síðast en ekki síst að sníða námið að einstaklingnum og veita stuðning. Þegar fólk fær réttu verkfærin, stuðningsríka kennara, kennsluaðferðir sem eru gagnreyndar í námi fullorðins fólks ásamt sterku baklandi í náms- og starfsráðgjöfum opnast gjarna nýjar víddir og nemandinn upplifir að hann ráði vel við verkefnið. Þá skiptir námsumhverfið máli og að það henti fullorðnu fólki, bæði kennsluaðstaðan og það að tilheyra námssamfélagi.

Aldrei of seint að byrja

Þegar nemendur sjá árangur erfiðis síns skila sér í náminu vex þeim ásmegin. Sjálfstraust til frekara náms eykst og þar með fjölgar þeim tækifærum sem þeir áður sáu aðeins í hyllingum.

Það er aldrei of seint að hefja nám. Sér í lagi í hröðu umhverfi samtímans þar sem menntunarkrafa eykst með hverju ári. Það kostar ekkert að sækja spjalla við náms- og starfsráðgjafa og fá aðstoð við að meta þína stöðu. Viðtöl geta bæði farið fram rafrænt og á staðnum. Hægt er að bóka tíma í ráðgjöf hér eða í síma 580 1800. Þitt tækifæri gæti legið hjá Mími.

Nánari upplýsingar