Mímir hefur tekið virkan þátt í þróun og verkefnastjórn á sviði Fagbréfa atvinnulífsins undanfarin fimm ár í samstarfi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, þar ber hæst að nefna Fagbréf atvinnulífsins fyrir verslunarstörf. Þá hófst vinna fyrr á árinu við framkvæmd mats vegna Fagbréfa fyrir öryggisverði í samstarfi við Securitas.

„Fagbréf atvinnulífsins marka þáttaskil þegar kemur að því að viðurkenna og formgera færni starfsfólks og auka sýnileika þekkingar í atvinnulífinu. Við hjá Mími hlökkum til að vinna áfram að þessu verkefni sem mun efla menntun og starfsþróun í atvinnulífinu,“ sagði Sólveig Hildur Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mímis.

Ársfundur Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins

Sérstök áhersla var lögð á Fagbréf atvinnulífsins á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA), sem haldinn var þann 13. nóvember á Grand hótel í samstarfi við NVL – Norrænt tengslanet um nám fullorðinna. Tveir nemendur í framhaldsfræðslu, fimmtu stoð menntakerfisins, hlutu viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur, þar á meðal Sigurður K. Guðmundsson en hann lauk fagnámi í verslun og þjónustu eftir raunfærnimat hjá Mími með Fagbréf í farteskinu. Sjá nánar hér. 

Starfsfólk Mímis fjölmennti á ársfundinn sem bæði var staðbundinn og á netinu.

„Við hjá Mími erum mjög stolt af því að Sigurður K. Guðmundsson hafi hlotið viðurkenninguna Fyrirmynd í námi fullorðinna árið 2024 eftir raunfærnimat hjá okkur sem í framhaldi veitti honum Fagbréf. Það sýnir sig og sannar enn og aftur hvað raunfærnimat getur komið að góðum notum og undirstrikar mikilvægi þess að fullorðnir fái tækifæri til að hefja nám að nýju með viðeigandi stuðningi, jafnvel eftir langt hlé frá námi. Við óskum Sigurði innilega til hamingju,“ sagði Sólveig Hildur Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mímis eftir fundinn.

Á ársfundinum fór Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ, yfir hugleiðingar varðandi mat á reynslu og þekkingu. Hildur Betty Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri FA, fjallaði um Fagbréf atvinnulífsins, frá færni til vottunar. Mats Johansson, framkvæmdastjóri Verslunarráðsins í Svíþjóð, fjallaði um hæfnisveitingu með samvinnu aðila vinnumarkaðarins. Selma Kristjánsdóttir, fagstjóri starfsmenntamála hjá VR og framkvæmdastjóri SVS, hélt ávarp um stefnumörkun í málaflokknum. Jakob Tryggvason, formaður Félags tæknifólks, sagði frá ferli og framkvæmd fagbréfa í tæknigreinum. Sara Dögg Svanhildardóttir, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, fjallaði um atvinnuþátttöku fatlaðs fólks hjá Vinnumálastofnun. Þá fóru Björg Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri SGS og Maj-Britt H. Briem, lögmaður á vinnumarkaðssviði SA, yfir hæfnilaunakerfi, nýjung í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.