Það er okkur sönn ánægja að segja frá því að í dag hlaut Sigurður K. Guðmundsson viðurkenningu Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins Fyrirmynd í námi fullorðinna árið 2024. Sigurður fór í fagnám verslunar og þjónustu eftir að hafa farið í raunfærnimat hjá Mími. Viðurkenningin var veitt á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem fór fram í dag, 13. nóvember, á Grand Hóteli. Viðurkenningin er veitt einstaklingum sem hafa hlotið framgang í starfi eða styrkt stöðu sína með öðrum hætti eftir að hafa nýtt sér eitt eða fleiri af verkfærum framhaldsfræðslunnar.
Um Sigurð
Sigurður er fertugur og hefur starfað hjá Krónunni síðustu 20 ár. Hann hóf framhaldsskólanám sitt strax að loknum grunnskóla í Iðnskólanum í Reykjavík þar sem hann skráði sig á tölvunarfræðibraut. Námið gekk vel í byrjun en fljótlega missti hann áhugann og hætti ári síðar. Í kjölfarið ályktaði hann að skólaganga væri ekki fyrir sig og ákvað að fara út á vinnumarkaðinn.
Í fyrra fékk Sigurður kynningu á raunfærnimati í verslun og þjónustu í Krónunni. Hann ákvað í kjölfarið að fara í raunfærnimat hjá Mími til að fá staðfesta þekkingu sína á sviðinu. Hann fékk staðfestingu í formi Fagbréfs þar sem staðfest var sérhæfð þekking sem nýtist vel í starfi. Auk fagbréfs fékk Sigurður metnar 30 einingar úr raunfærnimatinu og þegar hann sá hversu margar einingar hann fékk út úr því kviknaði löngun hjá honum til að taka námið lengra.
Sigurður ákvað því að skrá sig í fjarnám í Fagnámi verslunar og þjónustu hjá Verzlunarskóla Íslands. Hann hafði áður reynt fjarnám en það reyndist ekki henta honum og vakti takmarkaðan áhuga. Nú hafði hann hins vegar skýr markmið. Með staðfestu og metnaði útskrifaðist hann vorið 2024 og íhugar nú að ljúka stúdentsprófi hjá Verzlunarskóla Íslands og byggja þar á þeim grunni sem hann hefur skapað með raunfærnimatinu og Fagnámi í verslun og þjónustu.
Tækifæri til náms að nýju
Sigurður sýndi hugrekki og viljastyrk í verki þegar hann ákvað að taka skrefið og skrá sig í raunfærnimat hjá Mími-símenntun. Saga hans speglar reynslu margra fullorðinna sem nýta verkfæri framhaldsfræðslunnar til að sigrast á hindrunum í námi. Þótt sögur þeirra séu einstakar eiga þær það sameiginlegt að undirstrika mikilvægi þess að fullorðnir hafi tækifæri til að hefja nám að nýju með viðeigandi stuðningi, jafnvel eftir langt hlé frá námi.
Við hjá Mími óskum Sigurði innilega til hamingju með viðurkenninguna og óskum honum alls hins besta.