Ánægja með námskeið um nýja kennsluaðferð í stærðfræði

Um 16 manns sóttu fjarnámskeið hjá Mími í gær, fimmtudaginn 14. október, um nýja kennsluaðferð í stærðfræði á framhaldsfræðslustigi. Þátttakendur komu víða að og voru mjög áhugasamir um aðferðarfræðina sem kynnt var á námskeiðinu en meðal þátttakenda voru stærðfræðikennarar í framhaldsfræðslu, starfsmenn símenntunarmiðstöðva og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.

Kennsluaðferðin hefur reynst nemendum í framhaldsfræðslunni vel til að komast yfir þann ótta sem þeir hafa gagnvart stærðfræðinni sem oftar en ekki hefur verið þeirra stærsta hindrun á skólagöngunni.

Aðferðarfræðin, sem skýrð er í handbókinni; Að lesa stærðfræði - sjálfsstyrking fyrir nemendur í stærðfræði sem Mímir, í samstarfi við Hannes Hilmarsson og Fræðslusjóð, gáfu út fyrr á árinu, gengur út á það að nálgast stærðfræðina heildrænt þar sem byggt er á lestrarhæfni og lesskilningi nemenda. Markmið handbókarinnar er fyrst og fremst að greiða veg nemenda í framhaldsfræðslunni gagnvart stærðfræði og veita nemendum sjálfstraust til að takast á helstu hindranir á námsferlinum.

Hönnuður aðferðarfræðinnar, Hannes Hilmarsson sem jafnframt var kennari á námskeiðinu, býr yfir áralangri reynslu af stærðfræðikennslu á framhaldsskólastigi og samtali við bæði nemendur og foreldra þeirra um hindranir í stærðfræðinámi. Hann kennir nú stærðfræði í Menntastoðum hjá Mími. Hannes hefur menntun í faginu, kennarapróf og embættispróf í félagsráðgjöf.

Handbókina má nálgast á mimir.is: https://www.mimir.is/is/mimir/throunarverkefni/ny-og-nyleg-verkefni/ad-lesa-staerdfraedi