Velkomin í námsleiðina Handverk og samfélag - smiðja. Námsleiðin er fyrst og fremst ætluð flóttafólki.

 

Í smiðjunni læra þátttakendur handverk, í þessu tilviki prjón. Þátttakendur styrkja hæfni sína í handverkinu undir leiðsögn reynslumikilla kennara í faginu. Í því felst að skipuleggja, undirbúa og vinna að afurð úr prjóni. Prjón er falleg listgrein sem á djúpar rætur í íslenskri menningu og veitir því þátttakendum innsýn og tengingu við íslenskan menningararf.

Samhliða kennslu í handverki fá þátttakendur fræðslu um lykilatriði íslensks samfélags. Samfélagsfræðslan eflir skilning þátttakenda á samfélaginu sem þeir búa í og skilning á helstu einkennum íslenskrar menningar. Áhersla er lögð á að kynna þjónustu á vegum ríkis og sveitarfélaga svo sem skólaþjónustu og heilbrigðisþjónustu. Fjallað er um fjölbreytileika mannlífs, staðalmyndir, fordóma, mismunun, ólíka menningarhópa og áhrif þessara þátta á samskipti, almenn lífsgæði og framandi venjur í nýju landi. Þátttakendur kynnast jafnframt sögu og landnámi Íslands og fjallað er um pólitískt umhverfi á Íslandi. Fjallað um samfélagslega ábyrgð, umhverfismál og umhverfisvitund.

Námsleiðin er frábær vettvangur þar sem fólk sameinast og vinnur með handverk á skapandi hátt. Lögð er áhersla á að skapa gott andrúmsloft, stuðning og samræður sem styðja við nám og þróun hvers þátttakanda.

 

Nánari upplýsingar hjá verkefnastjóra: thorunn@mimir.is 

Flokkar: Námsbrautir