Staðfest af gæðateymi Mímis í september 2019

Stefna þessi og viðbragðsáætlun er byggð á stefnu og verklagi sem Alþýðusamband Íslands vann árið 2018 og sambandið starfar eftir. Efnið hefur verið aðlagað og staðfært miðað við starfsemi Mímis. Gæðateymi Mímis, hefur yfirfarið efnið og samþykkt þá stefnu og viðbragðsáætlun fyrir Mími sem hér birtist. Hún er tilgreind í gæðahandbók Mímis og vísað til hennar í Handbók fyrir kennara hjá Mími og í verktakasamningum. Starfsfólki ber skylda til að kynna sér stefnu þessa.

ASÍ studdist við eftirfarandi gögn við vinnu við eigin stefnu og viðbragðsáætlun sem Mímir byggir sína stefnu og viðbragðsáætlun á:

  • Rafrænn bæklingur: „Kynbundin og kynferðisleg áreitni og ofbeldi á vinnustöðum“ sem unnin var af samtökum launafólks í mars 2016 og byggir á lögum 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð 1009/2015 sem fjallar nánar um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.
  • Rammasamning um áreitni og ofbeldi við vinnu“, sem undirritaður var af BUSINESSEUROPE, UEAPME, CEEP og ETUC 27. apríl 2007.
  • Stefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga og viðbragðsáætlun vegna eineltis, ofbeldis, kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni (ágúst 2016/18).

Skilgreiningar

Skilgreining á hvað einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi styðst við reglugerð nr. 1009/2015 en þar segir í 3. gr.:

  • Einelti er síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
  • Kynbundin áreitni er hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
  • Kynferðisleg áreitni er hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
  • Ofbeldi er hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.

Aðrar skilgreiningar sem stuðst er við eru:

  • Starfsfólk er fastráðið starfsfólk og verktakar.
  • Trúnaðarmaður er tengiliður starfsfólks við VR og atvinnurekandann. Hlutverk hans er að vera til staðar fyrir samstarfsmenn, auðvelda samskipti við atvinnurekanda, miðla upplýsingum og hafa eftirlit með því að samningar séu haldnir á vinnustaðnum og lög ekki brotin á starfsfólki (sótt af www.vr.is 04.09.2019).
  • Öryggistrúnaðarmaður er tengiliður Vinnueftirlits og starfsfólks og fylgist með því að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustað sé í samræmi við lög nr. 152/2018 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
  • Þolandi er sá aðili sem verður fyrir einelti, ofbeldi, kynferðislegri eða kynbundinni áreitni. Þar til rannsókn á máli er lokið er notast við hugtakið „meintur þolandi“.
  • Gerandi er sá aðili sem beitir einelti, ofbeldi, kynferðislegri eða kynbundinni áreitni. Þar til rannsókn á máli er lokið er notast við hugtakið „meintur gerandi“. Gerandi getur verið af hvaða kyni sem er og þolandi getur verið af sama eða öðru kyni. Gerendur geta verið fleiri en einn gagnvart einum eða fleiri og þolendur geta að sama skapi verið einn eða fleiri.
  • Stjórnandi/stjórnendur eru framkvæmdastjóri og sviðsstjórar sem eru stjórnendur hver á sínu sviði og sameiginlega sitja þeir í stjórnendateymi Mímis.
  • Rannsakandi er til þess bær utanaðkomandi sérfræðingur, sem fenginn er til að rannsaka mál ef með þarf.

Markmið og stefna

Gildi Mímis eru fagmennska, framsækni og samvinna og er horft til gildanna í öllu starfi hjá Mími.

Stefna Mímis og viðbragðsáætlun vegna eineltis, kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni og ofbeldis er hluti af virkri vinnuvernd til að tryggja öryggi og vellíðan starfsfólks.

Starfsfólk Mímis sýnir samstarfsfólki sínu ávallt kurteisi og virðingu í samskiptum, hvort heldur er á vinnustaðnum eða utan hans. Áhersla er á samvinnu, vellíðan á vinnustað, öryggi, þróun í starfi og jafnrétti. Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi eru undir engum kringumstæðum umborin á vinnustaðnum hvort heldur er á milli vinnufélaga, stjórnenda og undirmanna eða af hálfu þriðja aðila. Meðvirkni starfsfólks í slíkum tilvikum er jafnframt óásættanleg.

Allt starfsfólk á rétt á vinnuumhverfi þar sem hættan á einelti, kynbundinni og kynferðislegri  áreitni og ofbeldi er ekki til staðar og öllum tilfellum mætt af festu og fagmennsku. Framkvæmdastjóra og stjórnendum Mímis ber skylda til að tryggja þau vinnuskilyrði.

Stjórnendur bera ekki aðeins ábyrgð á störfum starfsfólks heldur einnig á því að tryggja virka vinnuvernd með því að grundvallarreglur samskipta á vinnustað séu virtar. Nýjum starfsmönnum er kynnt stefna þessi og viðbragðsáætlun.

Birtingarmyndir

Einelti

Einelti er niðurlægjandi og særandi. Það getur bæði falist í því sem gert er og því sem látið er ógert. Einelti getur tekið á sig ýmsar myndir t.d:

  • Að starf, hæfni eða verk starfsmanns eru lítilsvirt.
  • Að draga að ástæðulausu úr ábyrgð og verkefnum.
  • Að gefa ekki nauðsynlegar upplýsingar.
  • Síendurtekin, ómálefnaleg gagnrýni.
  • Rógur eða útilokun frá félagslegum samskiptum.
  • Að skamma starfsmann í starfi eða gera hanna að athlægi.
  • Fjandskapur eða þögn þegar spurt er eða fitjað er upp á samtali.
  • Lítilsvirðandi texti í tölvupósti eða öðrum skriflegum sendingum.
  • Óþægileg stríðni.
  • Niðurlægjandi athugasemdir vegna, aldurs, kynferðis, kynhneigðar, uppruna eða annarra persónulegra þátta.
  • Þöggun.

Kynbundið og kynferðislegt áreiti og ofbeldi

Kynbundið og kynferðislegt áreiti getur bæði verið andlegt eða hreinlega líkamlegt ofbeldi. Upplifun þess sem fyrir slíkri hegðun verður getur verið mjög misjöfn og er hún mælikvarðinn á alvarleika ofbeldisins.

Kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni og/eða ofbeldi einkennist oft af misnotkun á valdi eða stöðu, andlegri kúgun og að sjálfsvirðingu sé misboðið, framkomu  sem  ætlað  er  að  knýja  einstaklinga  til undirgefni og gera lítið úr þeim, endurtekinni áreitni og niðurlægingu fyrir þann sem fyrir áreitninni verður og hefur  neikvæð  áhrif  á  andlega  og  líkamlega  heilsu  hans.

Dæmi um kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni og ofbeldi

Viðbrögð

 

Var efnið á síðunni hjálplegt?