Ljóst er að Mímir, ásamt öðrum símenntunarmiðstöðvum um land allt, mun skipa mikilvægan sess á næstu misserum við að styðja þá fjölmörgu sem misst hafa atvinnu á undanförnum mánuðum. Þetta brýna verkefni þarf að vinna í góðu samstarfi við verkalýðsfélögin og hefur Mímir nú þegar hafið samstarf við Eflingu stéttarfélag um skipulagningu fjögurra örnámskeiða undir yfirskriftinni Aftur til vinnu (e. Back to work). Námskeiðin miða að því að styrkja þá sem eru í atvinnuleit, meðal annars með því að  kenna gerð færnimöppu, ferilskrár og kynningabréfs. Þá er farið yfir hagnýt ráð í atvinnuleit og hvernig nýta má tölvutækni og samskiptaforrit í leit að nýju starfi.

Námskeiðin verða kennd á íslensku og ensku.

Námskeiðin eru opin öllum félagsmönnum Eflingar stéttarfélags, Verkalýðsfélagsins Hlífar í Hafnarfirði og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis (VSFK).

Starfsafl mun styrkja þróunarhluta verkefnisins um 90% af kostnaði auk þess kostnaðar sem til fellur vegna þýðingar á námsefni.

Nánari upplýsingar og skráningar vef Mímis