Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið stóð fyrir vinnustofu um stefnumótun í framhaldsfræðslu þann 7. nóvember síðast liðinn á Hilton Reykjavík Nordica. Vinnustofan er liður í endurskoðun ráðuneytisins á lögum um framhaldsfræðslu.

Sólveig Hildur Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mímis, sótti fundinn fyrir hönd Símenntar, samtaka fræðslu- og símenntunarmiðstöðva, ásamt tveimur öðrum fulltrúum frá Símennt. „Vinnustofan var með svokölluðu þjóðfundarsniði þar sem borðstjórar tóku á móti fólki í smærri hópum og ræddu saman. Skráðar voru niður hugmyndir og svo flutti hópurinn sig á ný borð með nýju fólki þar sem unnið var áfram með tillögurnar,“ segir Sólveig Hildur.

Í ávarpi sínu í upphafi vinnustofunnar sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra: „Framhaldsfræðslan snýst um að gefa fólki tækin og tólin til að lifa og starfa í lýðræðissamfélagi sem er á fleygiferð inn í framtíðina. Við þurfum að vera hugmyndarík og djörf og ræða hvernig framhaldsfræðslan nær best til fólks og fyrirtækja og hvernig hún tekur þátt í því að auka velferð og lífsgæði.“

„Það er heilshugar hægt að taka undir þessi orð hjá félags- og vinnumarkaðsráðherra. Við hjá framhaldsfræðslunni erum að þjóna breiðum markhópi nemenda auk atvinnulífs. Það eru mikil tækifæri innan framhaldsfræðslunnar í að efla fólkið okkar og styðja við breytingar sem eru að eiga sér stað í samfélaginu eins og til dæmis með tæknibreytingum. Framhaldsfræðslan er að mæta þeim hópi sem hefur stutta formlega menntun með námi, ráðgjöf og öðrum úrræðum sem miða að því að efla starfshæfni fólks og bæta stöðu þeirra á vinnumarkaði svo eitthvað sé nefnt,“ segir Sólveig Hildur.

Í framhaldi segir Sólveig Hildur að rétti tímapunkturinn til þess að endurskoða framhaldsfræðsluna og blása í hana nýju lífi og viðhalda því sem gott er sé einmitt núna. „Þörfin fyrir framhaldsfræðsluna er sannarlega til staðar. Það eru breytingar í farvatninu í samfélaginu almennt og við höfum tækin og tólin til þess að styðja fólk og vinnustaði í gegnum þær breytingar.“

Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu verða niðurstöður frá deginum rýndar af starfshópi um heildarendurskoðun framhaldsfræðslunnar sem verið er að skipa um þessar mundir. Félags- og vinnumálaráðherra mun fela hópnum að meta stöðuna og móta drög að nýrri stefnu í málaflokknum sem felur meðal annars í sér heildarendurskoðun á lögum um framhaldsfræðslu.