Við fylgjumst áfram með sem fluga á vegg á námskeiði í Samfélagsfræðslu fyrir arabískumælandi nemendur sem fram fer um þessar mundir hjá Mími. Það er Ashwaq Najjar sem kennir námskeiðið hjá Mími og fræðir nemendur um íslenskt samfélag og samsetningu þess á ólíkum sviðum. Við litum við í kennslustund hjá henni og spurðum hana út í mikilvægi kennslunnar og hvað nemendur fái fyrir sinn snúð.
Af hverju er mikilvægt að hafa námskeið eins og Landnemann aðgengilegt fyrir útlendinga? „Þörfin fyrir svona námskeið sprettur fram af þörf aðfluttra fyrir þekkingu. Þekkingu á því hvernig land og þjóð virkar. Það innifelur söguna, menninguna, siði, og það sem er mikilvægast lög og reglur landsins,“ segir Ashwaq. Hún heldur áfram og segir að þegar nemendur fái tækifæri til þess að læra framangreinda þætti sé það auðveldara fyrir þá að þekkja rétt sinn og skyldur. Þar með sé búið að leggja ákveðinn hornstein að því að aðlagast samfélaginu. „Þetta er eins og að rétta þeim sem hingað flytjast auðskilið vegakort sem leiðir þá að akkúrat þeim upplýsingum sem þeir þarfnast. Námskeiðið svarar flestum þeirra spurningum og lætur þeim í té upplýsingar um hvar megi ná sér í áreiðanlegar upplýsingar í framhaldinu t.d. gegn um vefinn.“
How do you like Iceland?
Sennilega einn ofnotaðasti frasi heimamanna sem flestir þeir sem hingað koma í lengri eða skemmri tíma fá að heyra. Við leggjum út af honum og spyrjum; Hvað finnst þátttakendum áhugaverðast við land og þjóð? Og hvað er að þínu mati mikilvægasti hluti námsins. „Þetta er erfið spurning sem ekki er hægt að svara með afgerandi hætti,“ segir, Ashwaq og brosir. „Allt námsefnið er nefnilega á sama tíma spennandi og mikilvægt. En þörfin fyrir sértæka þekkingu er mismunandi milli þátttakenda og því eru sumir hlutar námsins áhugaverðari fyrir einn en minna fyrir annan. Sem dæmi eru þátttakendur sem eru foreldrar áhugasamir um upplýsingar um skóla- og leikskólamál meðan yngri þátttakendur eru áhugasamir um hvar má ná sér í menntun eða vinnu,“ segir Aswaq og leggur áherslu á að námskeiðið sé fjölbreytt og þjóni breiðum hópi fólks.
Meðfylgjandi myndir sýna okkur vel hve fjölbreytt námið er og hvernig það er upp sett, en hver tími er mismunandi. Í tímanum sem var núna var meðal annars verið að fara yfir hagnýtar vefsíður og hópa á Facebook sem gott er að vita af. Brask og brall var meðal annars síða sem einhverjir höfðu áhuga á að nýta sér til að fjárfesta í ökutæki. „Við reynum að koma okkur inn í samfélagið. Þetta er hluti af því, segir Aswaq. Aswaq að vill að lokum koma því á framfæri að námið sé mikilvægt og þarft. Kennsluaðstaðan, kennsluaðferðirnar og allar vettvangsferðirnar skipti máli og stuðli að dýpri þekkingu á menningu og sögu landsins.