Þessa dagana er rótað í hverju horni í Mími með það fyrir augum að taka til og henda því sem ekki nýtist lengur. Tiltektin er liður í því að gera vinnustaðinn enn umhverfisvænni en Mímir setti sér stefnu í þeim efnum fyrir tveimur árum.

Mímir á sér langa rekstrarsögu og hefur starfsemin tekið miklum breytingum á þeim tíma. Við tiltektina kom ýmislegt skemmtilegt í ljós sem varpar ljósi á fjölbreytta starfsemi Mímis í gegnum árin, t.d. hjálmar sem notaðir voru á námsbraut um jarðlagnatækni, myndvarpar sem ættu heima á Árbæjarsafni, straubretti, kassettutæki, myndlistarvörur og fleira sem notað var á tómstundanámskeiðum Mímis þegar þau voru starfrækt. Allt fer þetta í endurvinnslu hjá Sorpu ásamt ógrynni af bókum og kennslugögnum sem ekki nýtast lengur.

Sagt er að minimalískur lífsstíll sé ein besta leiðin til að vera umhverfisvænn í dag. Við erum sannfærð um að nýr umhverfisvænn lífsstíll sé ekki aðeins góður fyrir jörðina og budduna heldur einnig fyrir okkur sjálf og vinnustaðinn.