Þann 20. febrúar sl. var stórt skref stigið í símenntun og starfsþróun á íslenskum vinnumarkaði þegar Mímir símenntun útskrifaði 14 starfsmenn Securitas með Fagbréf atvinnulífsins.
Þessi útskrift markar tímamót, þar sem um er að ræða fyrsta hópinn sem útskrifast með fagbréf í samstarfi Mímis og Securitas. Þetta er stór áfangi fyrir bæði starfsmenn, sem fá staðfestingu á hæfni sinni í starfi, og fyrirtækið sem hefur lagt mikla áherslu á fagmennsku og hæfniþróun innan vinnustaðarins.
Í útskriftinni kom fram mikilvægi verkefnisins og hvernig það hefur styrkt bæði einstaklingana og fyrirtækið.
Eiríkur Ronald Jósepsson, sérfræðingur og matsaðili hjá Securitas, lýsti raunfærnimatsferlinu frá sjónarhóli þeirra sem tóku þátt. Hann lagði áherslu á það hversu mikilvæg þessi leið er til að draga fram hæfni starfsmanna og veita þeim viðurkenningu fyrir þekkingu sína og reynslu.
Maj-Britt Hjördís Briem frá Samtökum atvinnulífsins útskýrði ferli Fagbréfsins. Hún ræddi líka samstarfið á milli fyrirtækja og fræðsluaðila og hvernig raunfærnimat er lykilverkfæri í símenntun og hæfniþróun á vinnumarkaði.
Kristín Erla Þráinsdóttir, fagstjóri ráðgjafar og raunfærnimats hjá Mími, fjallaði um ávinninginn af þessu verkefni, samstarfið við Securitas og mikilvægi þess að staðfesta hæfni starfsmanna með formlegum hætti. Staðfest hæfni í starfi með fagbréfi nýtist bæði starfsmönnum og vinnustaðnum til framtíðar.
Fagbréfin eru gefin út af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og tryggja að ferlið hafi verið unnið eftir vottuðum aðferðum. Kristín Erla, fagstjóri ráðgjafar og raunfærnimats hjá Mími, afhenti fagbréfin og óskaði starfsmönnunum til hamingju með þennan mikilvæga áfanga.
Við hjá Mími óskum útskriftarnemum innilega til hamingju með frábæran árangur og hlökkum til að fylgja þessu verkefni áfram.