Nemendur með þroskahömlun og annars konar fötlun útskrifuðust í gær, 12. desember, af splunkunýrri námsbraut hjá Mími sem ber heitið Færni á vinnumarkaði. Um er að ræða færninám sem felur í sér að efla færni fólks með þroskahamlanir til atvinnuþátttöku. Námið er í boði hjá símenntunarmiðstöðvum víða um land sem útskrifa um þessar mundir um 70 nemendur af námsbrautinni.
„Gleðin skein úr hverju andliti á útskriftinni og óskum við nemendum innilega til hamingju með frammistöðu sína“, segir Sólveig Hildur Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mímis.
„Hér er um að ræða metnaðarfullt samstarfsverkefni Vinnumálastofnunar, Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, Fjölmenntar og símenntunarmiðstöðva sem hefur það að markmiði að gefa nemendum með fötlun tækifæri til þess að efla færni sína, félagsþroska og valdeflast. Við vonumst til að námsbrautin gefi af sér ný tækifæri til frekara náms og/eða atvinnutækifæri“, segir Sólveig Hildur og bendir á að námið verði aftur í boði eftir áramótin hjá símenntunarmiðstöðvum, þar á meðal hjá Mími.
Fréttastofa Stöðvar 2 ræddi við nemendur eftir útskriftarathöfnina í gær sem segja námið hafa verið lærdómsríkt og skemmtilegt.
„Tækifærin sem þetta er að gefa, við heyrum að einstaklingar eru komnir með atvinnuviðtöl og -tilboð og mögulega áframhaldandi nám hjá Mími og þetta er svo stórkostlegt og það er nákvæmlega það sem markmiðið var. Það var að lyfta þessum hópi sem hefur fá tækifæri“, sagði Sara Dögg Svanhildardóttir, sérfræðingur í atvinnutækifærum fatlaðs fólks meðal annars í viðtalinu við Stöð 2.