Tæplega 120 nemendur útskrifuðust frá Mími í gær

„Ég vil þakka ykkur, kæru útskriftarnemendur, fyrir það traust sem þið hafið sýnt Mími, starfsfólki og kennurum, með því að leyfa okkur að eiga hlutdeild í ykkar lífi. Það er dásamleg tilfinning að sjá nemendur blómstra í námi og lífi eftir að hafa sigrað þær hindranir sem þeim hefur fundist vera óyfirstíganlegar, jafnvel árum saman. Að sjá nemendur útskrifast frá Mími fulla sjálfstrausts til að takast ótrauðir á við ný verkefni hvort sem er í námi eða starfi,” sagði Sólveig Hildur Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mímis, meðal annars þegar hún ávarpaði nemendur við útskrift Mímis sem fram fór við hátíðlega athöfn í Grafarvogskirkju í gær, 11. júní.

Sandra Dögg Ómarsdóttir Löve, útskriftarnemi úr Menntastoðum, ávarpaði einnig samkomuna. Hún talaði meðal annars um hve vel væri tekið á móti nýjum nemendum hjá Mími og hvernig þeim smám saman þeim vaxi ásmegin í náminu og útskrifist fullir sjálfstrausts. Námsaðstaðan hjá Mími væri notarleg og starfsfólk og kennarar afar hvetjandi. Hjá Mími væri umhyggja fyrir nemendum í fyrirrúmi.

Svavar Knútur söng og spilaði tvö falleg lög og minnti útskriftarnemendur á mikilvægi samkenndar í öllum samskiptum.

Að þessu sinni útskrifuðust 118 nemendur frá Mími, bæði úr námsbrautum og raunfærnimati.

Mímir óskar öllum nemendum til hamingju með áfangann og færir þeim og fjölskyldum þeirra hinar bestu óskir um gleðilegt sumar og gæfuríka framtíð.