"Berið virðingu fyrir viðhorfum og skoðunum annarra. Takið að sama skapi ábyrgð á ykkar eigin skoðunum og lífi. Sýnið samferðarfólki ykkar umburðarlyndi á lífsins leið og verið æðrulaus gagnvart því sem þið ráðið ekki við", sagði Sólveig Hildur Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mímis, meðal annars þegar hún ávarpaði nemendur við útskrift Mímis sem fram fór við hátíðlega athöfn í Grafarvogskirkju þann 14. desember.

Egill Örn Egilsson, útskriftarnemi úr Menntastoðum, ávarpaði einnig samkomuna. Hann talaði meðal annars um hve Mímir væri frábær staður fyrir fólk til að hefja nám að nýju. Þar væri umhyggjan í fyrirrúmi og passað vel upp á hvern einasta nemanda.

Fyrrum nemandi hjá Mími, Kolbrún Eva Viktorsdóttir, sá um tónlistina í athöfninni ásamt bróður sinum, Sigurvini Sindra Viktorssyni. Þess má til gamans geta að Kolbrún hefur nú hafið nám við frumgreinadeild HR. Var það mörgum útskriftarnemendum hvatning að heyra um það.

Það voru tæplega 90 nemendur sem útskrifuðust að þessu sinni, bæði úr námsbrautum og úr raunfærnimati.

Mímir óskar öllum nemendum til hamingju með áfangann og færir þeim og fjölskyldum þeirra hinar bestu óskir um gleðilega jólahátíð og gæfuríka framtíð.