Útskriftarathöfn haustannar 2017 fór fram í Grafarvogskirkju 21. desember. Tæplega 100 nemendur útskrifuðust að þessu sinni úr eftirtöldum námsbrautum:

  • Skólaliðar
  • Þjónustuliðar
  • Meðferð matvæla
  • Fagnnámskeið 1 umönnun
  • Framhaldsnám félagsliða um fötlun
  • Færni í ferðaþj
  • Grunnm.skóli
  • Menntastoðir 

Dagskráin hófst með ávarpi framkvæmdastjóra Mímis, Sólveigar Hildar Björnsdóttir. Þá tók Helga Lind Hjartardóttir, náms- og starfsráðgjafi, við og stýrði athöfninni af sinni alkunnu snilld. Vilborg Arna Gissurardóttir, pólfari, kom og flutti góð hvatningarorð til nemenda og hvatti þá til að fylgja hjarta sínu og nota kærleikann til að ná markmiðum sínum. Feðginin Valgeir Skagfjörð og Elísabet Skagfjörð fluttu fallegt tónlistaratriði og Erling Rafn Konráðsson flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnemenda. Talaði hann um þann mikla stuðning og hvatningu sem hann fékk frá kennurum og starfsfólki Mímis í sínu námi og tilkynnti jafnframt að hann væri búinn að skrá sig í áframhaldandi nám. Það finnst okkur hjá Mími ávallt gleðilegt að heyra. Ef okkur tekst að kveikja lítinn neista hjá okkar nemendum til að halda áfram námi og verða meiri og betri útgáfa af sjálfum sér þá er markmiði okkar náð. Að lokinni útskriftarathöfn þar sem nemendur fengu afhend skírteini og myndatöku var boðið upp á kaffi og meðlæti. Við óskum öllum okkar nemendum velfarnaðar í komandi verkefnum og þökkum þeim samfylgdina.