Tveggja daga námskeið fyrir íþróttakennara var haldið í vikunni í Hagaskóla, á vegum Mímis. Alls tóku 24 íþróttakennarar þátt og sýndu mikinn áhuga á að læra nýja tækni, leiki og æfingar til að nota í íþróttakennslu sinni.
Fjórir reynslumiklir kennarar deildu þekkingu sinni og reynslu á námskeiðinu. Mikil fagmennska og orka einkenndi kennsluna, sem hvatti þátttakendur enn frekar áfram og skapaði jákvætt og hvetjandi námsumhverfi fyrir alla. Á námskeiðinu lærðu og þjálfuðu þátttakendur fjölbreyttar kennsluaðferðir í íþróttagreinum, til að mynda handbolta, körfubolta og fimleikum. Þeir fengu skemmtileg dæmi um eltinga- og skotleiki og kennslu í fjölbreyttri notkun búnaðar svo sem húllahringja, baunapoka og sippubanda sem henta sérstaklega fyrir aldurshópinn 6-16 ára.
Þátttakendurnir voru verulega ánægðir og höfðu þeir m.a. þetta að segja um námskeiðið:
„Námskeiðið var flott, kennarar fínir með flotta nálgun og hugmyndir. Ég mun mæta aftur.“
„Ég lærði fullt af nýjum hlutum sem ég mun pottþétt nota í kennslunni í vetur.“
„Námskeiðið var mjög gott. Það sem mun nýtast mér mest í kennslu eru allir leikirnir sem voru teknir fyrir. Einnig í handbolta og körfubolta, gaman að fá svona margar hugmyndir af leikjum í kennslu með boltunum.“


