Í Gátt birtist nýlega grein eftir Vanessu Moniku Isenmann, verkefnastjóra hjá Mími, sem hefur umsjón með þróun og skipulagningu íslenskunáms. Í greininni fjallar hún um hvernig markviss íslenskukennsla á vinnustað getur haft djúpstæð áhrif á samskipti, fagmennsku og daglegt starf og hvernig kennslan styrkir öryggi og samvinnu á öllum sviðum Landspítalans.
Mímir-símenntun hefur um árabil verið í nánu samstarfi við fjölmörg fyrirtæki og stofnanir með það að markmiði að efla íslenskukunnáttu starfsfólks. Samstarfið við Landspítala er meðal stærstu samstarfsverkefna Mímis og hefur sýnt hvernig íslenskunám á vinnustað getur orðið samþættur hluti af faglegri þróun og vinnustaðamenningu.
Íslenskunám á vinnustað eflir fagmennsku og skapar sterkari tengsl milli fólks.
Þegar tungumálið er notað til að byggja brýr milli fólks eykst öryggi, fagmennska og samstaða. Samstarf Landspítala og Mímis sýnir glöggt hvernig markviss íslenskukennsla getur styrkt vinnustaðamenningu og haft bein áhrif á lífsgæði.
Samvinna sem breytir daglegu lífi
Á Landspítalanum mætist daglega mikill fjöldi starfsfólks hvaðanæva úr heiminum, fólk sem talar ólík tungumál og kemur úr ólíkum menningarheimum. Á vinnustað þar sem samskipti og traust geta skipt sköpum fyrir líf og heilsu er tungumálakunnátta ekki aðeins spurning um skilning, heldur um öryggi, samstöðu og fagmennsku.
Samstarf Mímis og Landspítala hófst árið 2018, í þeim tilgangi að efla íslenskukunnáttu starfsfólks spítalans og gera íslenskunám að sjálfsögðum hluta af daglegri starfsemi. Frá þeim tíma hafa hundruð starfsmanna tekið þátt í námskeiðum sem aukið hafa bæði sjálfstraust og samskiptafærni þeirra, en um leið skapað betra starfsumhverfi fyrir allt starfsfólk spítalans.
Vaxandi verkefni sem hefur breytt vinnustaðamenningu
Samstarfið hefur frá upphafi vaxið jafnt og þétt. Námskeiðin eru skipulögð í fimm hæfnistigum (Íslenska 1–5), sem samsvara stigunum A1.1–B1.1 samkvæmt evrópska tungumálarammanum. Þau eru kennd þrisvar á ári, þannig að byrjendanámskeið eru reglulega í boði, á meðan framhaldsnemar halda áfram á næsta stig þegar fyrra stigi lýkur.
Að jafnaði sækja um 110 manns námskeiðin hverju sinni og alls hafa rúmlega 1500 starfsmenn tekið þátt frá árinu 2018. Það er mikill fjöldi frá einum vinnustað og hópurinn sem námskeiðin snerta er enn stærri þegar tekin eru með í reikninginn þau jákvæðu áhrif sem þau hafa haft á vinnustaðamenninguna.
Fram til ársins 2024 fóru námskeiðin fram í húsnæði Mímis. Það skapaði hins vegar áskoranir fyrir starfsfólk sem þurfti að ferðast frá vinnu eða samræma vinnutíma og nám. Kennslan var því flutt inn á Landspítala og við það tók verkefnið stakkaskiptum. Við breytinguna varð auðveldara fyrir fólk að sækja tíma og tengja tungumálanám beint við daglegt starf. Kennslan varð þannig áþreifanlegur hluti af menningu vinnustaðarins, ekki aukaverkefni heldur eðlilegur þáttur í faglegri þróun.
Á haustönn 2025 voru haldin sex námskeið á stigum 1–4, með samtals 105 nemendum. Þessar tölur endurspegla vel áhuga og vilja starfsfólks til að efla íslenskukunnáttu sína og þann stuðning sem Landspítalinn veitir tungumálanámi. Spítalinn hefur jafnframt sett sér markmið um að starfsfólk nái B2-stigi innan tveggja ára frá ráðningu. Til að gera það mögulegt eru námskeið skipulögð á vinnutíma og vaktaplön aðlöguð, þannig að sem flest geti tekið þátt. Þarna er sannarlega um að ræða raunverulega fjárfestingu í fólki og um leið í gæðum heilbrigðisþjónustunnar.
Fjölbreyttur hópur – sameiginlegt markmið
Þátttakendur námskeiðanna koma frá ólíkum löndum og menningarheimum. Þau starfa jafnframt við fjölbreytt verkefni innan spítalans: hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, læknar, lyfjafræðingar, verkefnastjórar og við ýmis fleiri störf. Þessi fjölbreytni gerir námskeiðin að einstökum lærdómsvettvangi þar sem mismunandi reynsluheimar mætast og allir læra af öllum.
Kennsluáætlanir eru sniðnar að raunverulegum þörfum heilbrigðisstarfsfólks. Áherslan er ekki á hefðbundið kennsluefni heldur orðaforða og tjáningu sem nýtist beint í starfi, til dæmis í samtölum við sjúklinga, aðstandendur og samstarfsfólk. Hlutverkaleikir, samtalsverkefni og vettvangsferðir gera kennsluna svo lifandi og tengda daglegu starfsumhverfi.
Þannig læra nemendur ekki eingöngu að beygja sagnir heldur að nota íslensku til að efla fagmennsku sína, draga úr hættu á misskilningi og styrkja samskipti. Það skilar sér í betri þjónustu við sjúklinga, meiri starfsánægju og sterkari tengslum milli fólks.
Gæði byggð á samræmingu og traustu mati
Gæði kennslunnar hafa verið í brennidepli frá fyrsta degi. Árið 2024 voru kennsluáætlanir samræmdar á öllum stigum en það tryggir að nemendur fái jafna kennslu, óháð hópi eða kennara. Á vorönn 2025 var einnig tekið upp samræmt lokapróf á öllum stigum og þannig fá nemendur skýra mynd af framvindu sinni og geta byggt á því í eigin markmiðasetningu.
Til að tryggja að námið hefjist á réttu stigi er stöðumat í boði fyrir nýja nemendur á hverri önn. Það fer fram á netinu og samanstendur af skriflegu mati í gegnum Eurotest-kerfið og stuttu munnlegu viðtali í gegnum Teams-forritið. Að jafnaði taka um 30 manns þátt í stöðumatinu hverju sinni.
Nýjung ársins 2025 var svo vitundarherferð fyrir íslenskt starfsfólk og stjórnendur, til að hvetja þau til að styðja erlent samstarfsfólk sitt í tungumálanámi. Í tengslum við það var hannað einfalt veggspjald með fimm leiðum til að efla íslensku á vinnustaðnum. Þessi nálgun færir tungumálanám frá því að vera persónulegt verkefni einstaklings yfir í það að vera sameiginlegt átak allrar stofnunarinnar.
Framtíðin: Íslenska sem hluti af fagmennsku
Þó að árangurinn sé góður, fylgja verkefninu eðlilega áskoranir. Það þarf til dæmis að tryggja nægt framboð hæfra kennara, viðhalda gæðum kennslunnar og þróa námsefni sem mætir fjölbreyttum þörfum starfsfólks. Eftirspurnin er mikil og ljóst að verkefnið þarf áframhaldandi stuðning og fjárfestingu.
Verkefnið er þó svo miklu meira en bara fjárfesting í tungumálakunnáttu, það er líka fjárfesting í öryggi sjúklinga og gæðum þjónustunnar. Með aukinni íslenskukunnáttu eykst fagmennska, samskipti verða greiðari og samstarf styrkist, sem hefur að sjálfsögðu allt bein áhrif á lífsgæði almennings.
Framtíðarsýnin er skýr: að gera íslenskunám að sjálfsögðum hluta af starfi í heilbrigðisgeiranum. Með áframhaldandi samstarfi Mímis og Landspítala er stigið mikilvægt skref í þá átt, auk þess sem það skapar fordæmi fyrir fleiri vinnustaði á Íslandi.
Tungumálið sem sameiginlegur styrkleiki
Verkefnið um íslenskunám á Landspítala sýnir hvernig markviss fræðsla getur skapað raunveruleg verðmæti fyrir einstaklinga, vinnustaði og samfélag. Námskeiðin byggja sannarlega brýr milli fólks í ólíkum störfum og af ólíkum uppruna.
Hér er ekki aðeins um tungumálaverkefni að ræða, heldur menningarlega nálgun sem snýst um traust, þátttöku og sameiginlega ábyrgð. Þegar öll leggja sitt af mörkum, nemendur, kennarar, stjórnendur og samstarfsfólk, verður vinnustaðurinn vettvangur þar sem tungumálið sameinar fólk í stað þess að skilja það að.
Með því að bjóða upp á íslenskunám á vinnustaðnum hefur Landspítalinn sýnt að vinnustaðurinn er kjörinn vettvangur fyrir markvisst tungumálanám á forsendum starfsfólks, nám sem bæði sameinar starfsfólk og leiðir til bættrar þjónustu í heilbrigðiskerfinu.


