Mímir og Fisktækniskólinn héldu í samstarfi námskeið fyrir starfsfólk Brims. Námskeiðið var haldið í vinnslustoppi á milli jóla og nýárs. Meðal þess sem kennt er í náminu er öryggismál í fiskvinnslu, samskiptatækni, skyndihjálp. Þá er farið í grunnatriði við veiðar, vinnslu og meðferð fiskafurða. Í samtali við Sigríði Dr. Jónsdóttur, sviðsstjóra hjá Mími – Símenntun kemur fram að námið sé fjölbreytt og stuðli að aukinni hæfni innan greinarinnar. „Markmiðið með náminu er að auka hæfni starfsmanna innan fiskvinnslugeirans. Þarna er farið í fjölbreyttar námsgreinar sem tengjast með beinum hætti við starfsemi fiskvinnslu. Það er mat okkar sem komum að námskeiðinu að það sé mikilvægt að gefa starfsmönnum tækifæri til þess að efla sig í starfi.“

Pálmi Hafþór Ingólfsson, verkefnastjóri fræðslu og heilbrigðis hjá Brim tekur undir orð Sigríðar. „Námskeiðið er mikilvægur liður í því að auka þekkingu og færni starfsfólks hjá Brim. Um leið erum við að hvetja fólkið okkar til dáða. Árangur okkar byggir á því að vinnslukeðjan sé sterk. Allt frá því að við veiðum fiskinn þar til hann er kominn á disk neytenda. Með aukinni sérþekkingu starfsmanna höldum við þeim gæðaviðmiðum sem við höfum sett okkur. Það má líka benda á mikilvægi þess að gefa fólki tækifæri á að efla sig í starfi. Það hefur jákvæð og hvetjandi áhrif á starfsandann, en það er okkur mikilvægt að eiga gott og ánægt starfsfólk,“ segir Pálmi að lokum.