Kæru kennarar og nemendur

Nú þegar heilbrigðisráðherra hefur staðfest lengra samkomubann vegna heimsfaraldursins er ljóst að nám og kennsla hjá Mími verður áfram í stafrænum heimi út þessa vorönn.  

Starfsemi Mímis og skólastarf hefur tekið miklum breytingum á skömmum tíma í kjölfar samkomubanns. Bæði kennarar og nemendur hafa sýnt aðdáunarvert frumkvæði og seiglu við að mæta nýjum kröfum um stafræn samskipti. Hin tæknilega framtíð er allt í einu í nútíð, kannski mun fyrr en við reiknuðum með. Við mætum vissulega nýjum áskorunum en ekki síður nýjum lausnum.  

Þakklæti til ykkar allra 

Mér er efst í huga þakklæti til ykkar allra. Ég er stolt yfir því hvernig þið hafið tekist á við erfiðar og krefjandi aðstæður í skólastarfinu og samfélaginu. Ég er stolt af samfélaginu okkar, hvernig starfsfólk, kennarar og nemendur í Mími hafa tekist á við krefjandi stöðu af yfirvegun, verið úrræðagóðir og ekki síður skynsamir á þessum tímum. Nú sem aldrei fyrr skiptir máli að standa saman og sýna hvert öðru samkennd.   

Starfsfólk Mímis er boðið og búið til aðstoðar. Ég hvet kennara til að leita til tækniþróunarteymisins og fá aðstoð við að gera kennsluna stafræna. Þá minni ég á nemendateymið sem náms- og starfsráðgjafar okkar sem skipa til þess að styðja við bakið á nemendum okkar. Ég hvet ykkur jafnframt til að fylgjast vel með framgangi mála sem snerta skólastarfið í Mími í fréttum á vefmiðlum skólans, www.mimir.is og facebook síðu.  

Haustönn hjá Mími 

Undirbúningur haustannar er í fullum gangi og byrjum við að auglýsa námskeiðin eftir páska. Í ljósi þeirrar óvissu sem nú ríkir munum við bjóða bæði upp á staðnám og fjarnám í nánast öllu námi. Þetta fyrirkomulag verður endurskoðað reglulega með tilliti til ástandsins í samfélaginu.  

Þá býr Mímir sig nú undir stóraukna eftirspurn með þróun úrræða fyrir þá sem missa vinnuna. Þetta er þó háð því að hægt verði að tryggja nægilegt fjármagn til framkvæmdarinnar. Framhaldsfræðslan, þar með Mímir, var sterkur bakhjarl í hruninu, gegndi lykilhlutverki í menntun og virkni fólks, meðal annars í samstarfi við Vinnumálastofnun.  

Þetta er langhlaup 

Margir eiga erfið verkefni fyrir höndum. Nú hefur aldrei verið mikilvægara að huga hvert að öðru og standa saman. Hlýðum Víði. Sammælumst um að halda áfram á þeirri braut sem við höfum fetað síðast liðnar þrjár vikur, virðum reglur um sóttkví og samkomubannið, reynum að takmarka óþarfa samneyti og gætum að sóttvörnum. Við berum öll ábyrgð. Við erum almannavarnir. 

Þetta er langhlaup. Vissulega eru hindranir á veginum en saman munum við komast yfir þær með seiglu og úthald í farteskinu. Storminn mun lægja og betri tíð koma. Á meðan við bíðum skulum við hlúa sérstaklega hvert að öðru og huga að því sem gefur lífinu gildi.  

Ég óska ykkur öllum og fjölskyldum ykkar gleðilegrar páskahátíðar. 

Sólveig Hildur Björnsdóttir 

Framkvæmdastjóri  

Mímir-símenntun