Glæsilegur útskriftarhópur af námskeiðinu Fagnámskeið 1 fyrir starfsfólk á leikskóla gekk sáttur út í góða veðrið í gær. Á fagnámskeiðunum er bæði lögð áhersla á námsþætti sem styrkja persónulega og almenna færni t.d. sjálfstyrkingu og samskipti, námstækni, færnimappa og tölvur og svo námsþætti eins og uppeldi leikskólabarna, þroski og þróun leikskólabarna, listastarf með börnum, námsskrá leikskóla, fjölmenningarlegan leikskóla og fleiri.

"Þetta var virkilega hress og skemmtilegur hópur fólks sem útskrifaðist hjá okkur að þessu sinni.  Fagnámskeiðin eru haldin í samstarfi milli Eflingar og Mímis - símenntunar. Það þýðir að nemendur geta sótt námið sér að kostnaðarlausu. Það skilar sér jafnframt í því að þeir hækka um launaflokk í sínu starfi ásamt því að vera betur í stakk búin til þess að takast á við áskoranir innan leikskólanna," segir Þórunn Grétarsdóttir, verkefnastjóri hjá Mími.