María Stefanía, fagstjóri íslenskudeildar hjá Mími, og Birgitta fyrrum nemandi skólans kíktu í heimsókn í K100 nýverið og spjölluðu við Heiðar Austmann, þáttastjórnanda um Menntastoðir.
Þær ræddu mikilvægi símenntunar, fjölbreytt námstækifæri fyrir fullorðna og hvernig Mímir getur breytt lífi fólks sem vill taka nýtt skref þegar kemur að menntun eða starfsferli.
Menntastoðir eru vinsæl leið fyrir þá sem vilja komast aftur í nám eða undirbúa sig fyrir háskólanám. „Þetta er í raun bóklegt nám sem samsvarar fyrsta og öðru ári í framhaldsskóla. Það hentar fólki sem er 18 ára og eldra, og við leggjum áherslu á að aðstoða hvern og einn við að finna rétta námsleið,“ segir María meðal annars í viðtalinu.
Birgitta, sem útskrifaðist úr Mími eftir að hafa lokið Menntastoðum, segir reynsluna hafa verið umbreytandi.
„Ég er dæmi um ungling sem nennti ekki að vera í skóla,“ segir hún og brosir. „Ég flosnaði upp úr framhaldsskóla og sannfærði sjálfa mig um að ég væri bara heimsk. Skóli væri ekki fyrir mig.“ En þegar hún skráði sig í Mími breyttist allt. „Ég kláraði námið á einni önn með mjög góðum einkunnum – og komst þá að því að ég var alls ekki heimsk. Ég fann sjálfsöryggið mitt aftur og viljann til að gera meira. Þetta opnaði miklu fleiri möguleika en ég hafði nokkurn tímann gert mér grein fyrir,“ segir hún.
Við mælum eindregið með því að hlusta á viðtalið við Maríu Stefaníu og Birgittu hér: K100 - Upptökur - María Stefanía og Birgitta frá Mími kíktu í heimsókn. Einnig er hægt að lesa grein úr viðtalinu hér: „Ég flosnaði upp úr framhaldsskóla“


