Menntamorgnar Mímis eru haldnir með reglulegu millibili fyrir starfsfólk Mímis. Fimmtudaginn 3. nóvember sl. var þema fundarins áframhaldandi vinna að stefnumörkun Mímis fyrir árið 2023. Vinnufundinum stjórnaði Einar Birkir Einarsson, ráðgjafi. Einar kom einnig að stefnumótunarfundi sem haldinn var í mars á þessu ári þar sem saman komu hagsmunaaðilar víða að úr samfélaginu og lögðu okkur til sína sýn, hugmyndir og þekkingu sem nú verður unnið frekar úr.

Markmiðið að móta skýra stefnu fyrir næsta ár

„Það er nauðsynlegt fyrir okkar starfsemi að endurmeta starfsemina og hafa skýra stefnu. Vinnumarkaður og samfélag er síbreytilegt og mikilvægt fyrir sí- og endurmenntunargeirann að vera á tánum í sínu framboði á námi og svara eftirspurn atvinnulífsins og einstaklinga,“ segir Sólveig Hildur Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mímis. Fyrr á árinu var haldinn snarpur stefnumótunarfundur hjá Mími þar sem ólíkir samstarfsaðilar tóku fyrir ólík atriði og skiluðu niðurstöðum. Aðspurð segir Sólveig þessar niðurstöður grunninn fyrir þeirri vinnu sem starfsmenn tóku fyrir á fundinum í morgun. „Það komu fram ákveðin þemu sem ákveðið var að setja áherslu á. Það var svo í höndum starfsmanna að vinna þessar hugmyndir áfram. Við höfum verið í þessari vinnu undanfarið en þetta var mikilvægur liður í því að fá alla í sömu átt og róa að sama markmiði.

Mikil þekking og mannauður til staðar

Í máli Sólveigar kom fram að starfsmenn hefðu leitt til lykta þann kjarna sem að Mímir stendur fyrir. „Þekkingin hér innanhúss er gríðarleg og við höfum mörg tækifæri til að styðja við einstaklinga og atvinnulíf. Við sáum skýrar þá stefnu sem við viljum taka og hvaða skref við þurfum að stíga til þess að ná þeim árangri sem við viljum á árinu 2023. Ég er þess fullviss að afrakstur dagsins skili okkur áfram og skýri línurnar hvar við getum gert betur og hvað við erum að gera vel. Liðsheildin innan starfsmannahópsins er mjög góð og við vinnum öll sem eitt að bættum tækifærum fyrir nemendur okkar,“ segir Sólveig að lokum.