Ef það skiptir einhvers staðar máli að vera á tánum er það í sí- og endurmenntunargeiranum. Mímir hefur það að markmiði að bjóða einstaklingum og vinnustöðum ávallt eftirsóknarvert framboð námskeiða og þjónustu sem eflir hæfni og þekkingu fólks í starfi og einkalífi. Þarfir markaðarins eru síkvikar og því ákvað Mímir að hefja stefnumótun með helstu hagaðilum sem koma að starfsemi Mímis með einhverjum hætti. „Við hjá Mími teljum þetta réttan tímapunkt til að líta okkur nær, skilgreina getu okkar og hæfni og fullvissa okkur um að við séum að staðsetja okkur rétt gagnvart framtíðinni,“ segir Sólveig Hildur Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mímis, við upphaf greiningarfundar sem fram fór hjá Mími fimmtudaginn 24. febrúar síðastliðinn.

Samtal milli hagsmunaaðila veitir skýra sýn

Hátt í 40 manns tóku þátt í fundinum sem er fyrsta skrefið í stefnumótun Mímis. Auk starfsfólks Mímis sóttu fundinn fulltrúar úr kennarahópi Mímis og nemenda, fulltrúar úr stjórn Mímis frá verkalýðshreyfingunni og fulltrúar frá ýmsum samstarfsfyrirtækjum og stofnunum. „Við leituðum til ólíkra samstarfsaðila okkar til þess að fá skýra sýn á það sem við erum að gera vel og það sem við getum gert enn betur. Þetta var snarpur fundur þar sem farið var yfir ólík atriði og umræðuhópar tóku fyrir fyrir fram ákveðin lykilmálefni,“ segir Sólveig Hildur. Alls voru fjórir umræðuhópar: nýjar stefnur og straumar í námi, staða sí- og endurmenntunar, samfélagslegar aðstæður og samkeppni. Umræður voru líflegar og má segja að fundarstjórinn, Einar Birkir Einarsson, sérfræðingur, hafi farið á kostum og leitt fram umræður sem færa Mími verkfæri til að marka sér stefnu til framtíðar.

Mímir veitir fólki tækifæri til að efla hæfni og ná árangri á vinnumarkaði framtíðarinnar

Sólveig Hildur segir hæfni- og færniþróun vera lykilatriði á öllum sviðum samfélagsins. „Framtíðin mætti snemma, alla vega hvað tæknibreytingar varðar, og hefur heimsfaraldurinn vafalaust haft þar áhrif. Tækniþróunin er hröð. Eins kalla loftslagsbreytingar á aukna sjálfbærni, ekki síst á vinnumarkaði. Störf munu breytast töluvert á næsta áratug. Fleiri störf verða til sem mörg hver kalla á nýja færni, færni sem fólk ætti að tileinka sér til að eiga séns á að eiga farsæla framtíð á vinnumarkaði,“ segir Sólveig Hildur og heldur áfram: „Símenntunarmiðstöðvar eins og Mímir eru í raun hæfniþróunarmiðstöðvar. Þar er unnið með einstaklingum og vinnustöðum að því að efla hæfni sem er nauðsynleg hverju sinni.“

Mikilvægt að líta inn á við

Í samtali við Sólveigu Hildi kemur fram að það sé öllum hollt að líta inn á við og skoða hvað vel sé gert og hvað betur megi fara. „Stefnumótunin er unnin í nokkrum skrefum en lokaafurðin verður sá kúrs sem við setjum inn í framtíðina. Mímir verður tuttugu ára á þessu ári og er það vel við hæfi að fagna afmælinu með því að klæða Mími upp á og jafnvel skipta um gír þar sem þarf. Mætingin var einkar góð og niðurstöðurnar lofa góðu. Við erum í miðjum klíðum að vinna þetta áfram og ég hlakka til að segja betur frá niðurstöðunum síðar. Ég þakka svo öllum fyrir góðar og líflegar umræður. Við fyrstu sýn þykir mér þessi vinna hafa skilað okkur talsverðum árangri strax,“ segir Sólveig Hildur að lokum.