Frá hausti 2022 hefur Mímir verið í samstarfi við hjúkrunarheimilin Grund og Mörk varðandi íslenskukennslu fyrir starfsfólk. Kennd hafa verið alls átta námskeið, á stigum 1, 2 og 3 og hefur þátttaka verið mjög góð á vinnustaðnum. Nemendur hafa mætt vel, sinnt náminu af áhuga og náð miklum framförum í íslensku. Lögð hefur verið áhersla á starfstengdan orðaforða og hefur það mælst vel fyrir.  

Þegar rætt er við Sigríði Sigurðardóttur, sviðsstjóra á Gæða- og fræðslusviði skín í gegn metnaður vinnustaðarins fyrir íslenskunámi starfsmanna. „Það má með sanni segja að íslenskunámskeiðin hafi fest sig í sessi og eru deildarstjórar meðvitaðir um gagnsemi þeirra og sjá framfarir hjá sínu fólki. Vissulega þarf mikla og góða samvinnu starfsfólks þegar hluti starfsfólks fer á námskeið á vinnutíma en það er meðal annars leyst með því að velja tíma fyrir námskeiðið sem hentar starfseminni best, eins og eftir hádegi,“ segir Sigríður.  

Það er hagræðing fyrir vinnustaðinn að hafa sameiginleg námskeið fyrir Grund og Mörk því annars væri erfitt að manna hópa og þá væri lengra á milli námskeiða. Þrátt fyrir aukin kostnað var í vetur boðið upp á leigubílakstur fyrir starfsfólk á milli starfsstöðva til að auðvelda aðgengi að íslenskunáminu. Boðið var upp á þennan kost í vetur þegar námskeið í íslensku 2 í Mörk var haldið  en þetta auðveldaði starfsfólki til muna að stunda námið.  

Á dögunum lauk námskeiðinu í Mörk en rætt var við kennarann Þóru Magneu Magnúsdóttur sem kenndi hópnum. Upplifun kennarans af námskeiðinu var mjög góð, kom áhugi nemenda fljótt í ljós og voru þeir ánægðir með að fá að koma með sínar hugmyndir inn í kennsluna. Ásamt hefðbundinni íslenskukennslu var ekki síður lögð áhersla á samræður og innsýn í íslenskt samfélag. Það var farið yfir ýmsa hagnýta þætti eins og t.d. að skilja launaseðil og þekkja sín réttindi sem til dæmis fylgja stéttarfélagi. Þá var unnið markvisst með orðaforða nemenda bæði hvað varðar vinnustaðinn en líka varðandi áhugamál og fleira utan vinnu. Kennarinn hafði orð á því hvað nemendur komu fallega fram hver við annan og
þau voru dugleg að aðstoða hvort annað ef svo bar undir.  

Þóra Magnea var ánægð og þakklát með hópinn sinn og fannst yndislegt að fá að kynnast hópi einstaklinga frá svona mörgum löndum. Sjálf lærði hún mikið um siði og venjur í öðrum löndum en einnig fékk hún innsýn inn í lífsreynslu margra, lífsreynslu, sem er afar fjarlæg mörgum á Íslandi.

Eins og bent hefur verið á úr fjölmörgum áttum þá er það að skilja og geta notað íslensku einn af lyklunum að samfélaginu og er það sameiginlegt verkefni meðal annars atvinnurekenda og fræðsluaðila að veita innflytjendum tækifæri til að læra íslensku. Hjá Grund og Mörk hefur íslenskukennslu verið vel sinnt og starfsfólki gefið tækifæri til að stunda íslenskunámið á vinnustað og á vinnutíma og þetta hefur verið mikilvægt fyrir starfsfólkið. Þá er samstarfsfólk meðvitað um íslenskukennsluna og hvatt til að tala íslensku við þá sem eru að æfa sig í tungumálinu. Starfstengt íslenskunám á vinnustöðum er samvinnuverkefni allra á vinnustaðnum og ef jákvæðni, áhugi og þátttaka allra eru ríkjandi eins og á Grund og Mörk, lætur árangurinn ekki á sér standa.