Íslenskunámskeið á vegum Mímis eru í sífelldri þróun. Meðal þess sem verið er að vinna að þessa dagana er að undirbúa starfstengt nám hjá Brimi þar sem starfsfólk lærir orðaforða sem tengist þeirra vinnuumhverfi en Mímir og Brim hafa unnið lengi saman að íslenskukennslu innan fyrirtækisins. Innan Brims er mikil áhersla lögð á að starfsmenn fái góða þjálfun í íslenskunni og sífellt er leitað leiða til þess að gera námið skemmtilegt og það hjálpi fólki að eiga í samskiptum sín á milli og í samfélaginu. Verkefnastjóri verkefnisins er Joanna Dominiczak, en hún segir einna mikilvægast í íslenskukennslunni sé að æfa sig í að tala.
„Verkefnið er liður í því að gefa starfsfólkinu góðan grunn í því að ræða sín á milli um vinnutengd málefni. Það ýtir undir að fólk noti íslenskuna fremur en að grípa í ensku. Það eru einföld vísindi að því meira sem þú notar nýtt tungumál sem þú ert að læra því hraðar byggir þú upp kunnáttu.“ Joanna segir að ólíkir málhópar séu innan fyrirtækisins og það sé mikilvægt að þeir geti talað saman og skilið hvern annan. En er þá námið byggt algerlega út frá vinnunni? „Nei, alls ekki. Við leggjum auðvitað áherslu á þau orð og setningar sem mikilvægt er að kunna innan vinnustaðarins eins og nöfn á hráefni og eða tækjabúnaði. Samhliða er svo almenn íslenska sem nýtist víða í samfélaginu.“
Joanna hefur sterka innsýn í það hvernig íslenskan er lykill að samfélaginu og hjálpi fólki að aðlagast. „Verandi aðflutt sjálf þekki ég hversu mikilvægt það er að hafa íslenskuna. Hún er lykilinn að samfélaginu. Ég þekki það líka að besta námið er að fá í hendurnar orð og setningar sem hægt er að nota dagsdaglega því þá verður þetta eðlislægt. Maður þorir frekar að beita nýju tungumáli víðar en í vinnunni. En þjálfunin fer fram þar með samstarfsfólkinu sem er mjög gott fyrir mann.“