Tíu starfsmenn Mímis sóttu fjölmennan haustfund Símenntar, samtaka fræðslu- og símenntunarmiðstöðva, í Borgarnesi, dagana 25. og 26. september. Á fundinum var meðal annars fjallað um fjölbreytt þróunarverkefni sem símenntunarmiðstöðvar vinna að, jafnt á innlendum vettvangi og í evrópsku samstarfi. Undir þeim lið kynntu fulltrúar frá Mími þrjú þróunarverkefni. Það voru verkefnin Discover and Empower sem lýtur að náms- og starfsráðgjöf fyrir markhóp framhaldsfræðslunnar af erlendum uppruna, verkefnið Tungumálamentorar í íslensku í fyrirtækjum og verkefnið BRICK sem miðar að því að efla færni erlends starfsfólks á heilbrigðissviði og í öðrum starfsgreinum, meðal annars með starfstengdri tungumálakennslu og áherslu á græna og stafræna hæfni
Fulltrúar frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins kynntu tölfræðilega samantekt um nýtingu á fjármagni úr Fræðslusjóði til námsleiða og náms- og starfsráðgjafar eftir landssvæðum. Þá kynntu fulltrúar frá Fjölmennt heimsóknir sínar til allra símenntunarstöðva og þær áskoranir, hugmyndir og möguleika á samstarfi sem málaflokkurinn býður uppá. Í lok fundar voru málstofur um málaflokka innan framhaldsfræðslunnar þar sem þátttakendum gafst tækifæri til að ræða saman og fá innsýn í störf allra símenntunarstöðvanna.


