Hjá Mími lauk nýlega síðustu lotu af fjórum í leiðtoganámskeiði fyrir stjórnendur BAUHAUS, sem hefur staðið yfir frá árinu 2024.

Markmið námskeiðsins var að styðja við stjórnendur og efla hæfni þeirra til að byggja upp jákvæða fyrirtækjamenningu sem stuðlar að vellíðan starfsfólks. Lögð var áhersla á að þátttakendur fengju yfirsýn yfir stjórnunar- og leiðtogafræði, auk þess að kynnast aðferðum sem styrkja jafnrétti á vinnustað, efla liðsheild og teymisvinnu.

Í fjórðu lotunni var sjónum sérstaklega beint að breytingastjórnun og hvernig stjórnendur geta leitt hópa í gegnum breytingar með markvissum hætti. Þátttakendur kynntust hagnýtum verkfærum til að greina, skipuleggja og hrinda breytingum í framkvæmd, auk þess sem rætt var um mikilvægi skýrra samskipta, trausts og samvinnu í breytingaferlum.

Starfsfólk BAUHAUS hefur nú lokið þessu metnaðarfulla námskeiði og við óskum þeim innilega til hamingju með áfangann.

Við hjá Mími erum stolt af samstarfinu og hlökkum til að fylgjast með jákvæðum áhrifum námskeiðsins á stjórnunar- og teymismenningu fyrirtækisins í framtíðinni.

 

Samstarf Mímis og BAUHAUS hefur verið farsælt og byggt á gagnkvæmum vilja til að efla starfsmenningu og faglegan styrk innan fyrirtækisins. Samvinnan er gott dæmi um hvernig markviss fræðsla getur haft raunveruleg og jákvæð áhrif á vinnustaði.