Hátt í 500 einstaklingar þreyttu íslenskupróf hjá Mími dagana 17. maí til 2. júní í tengslum við umsókn um íslenskan ríkisborgararétt. Fyrirlögn prófanna fór einnig fram á Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði í samstarfi við símenntunarmiðstöðvar í heimabyggð.

Heilmikið skipulag er í kringum prófin, sem reyna á hlustun, tal, lesskilning og ritun próftaka, og koma fjölmargir starfsmenn Mímis að verkefninu. Unnið er samkvæmt kröfum sem Menntamálastofnun setur en Mímir sér um framkvæmd prófanna fyrir stofnunina.

„Þeim fjölgar sífellt sem vilja þreyta prófin en þau eru haldin tvisvar á ári, að vori og að hausti. Mímir hefur séð um framkvæmd prófanna í þónokkur ár en mikil sérhæfing liggur orðið hjá Mími vegna fyrirlagnar þessara prófa,“ segir Alma Guðrún Frímannsdóttir, verkefnastjóri en hún hefur yfirumsjón með fyrirlögn prófanna hjá Mími.