Sífellt fleiri fyrirtæki leita til Mímis um samstarf vegna fræðslu fyrir starfsfólk sitt enda býr Mímir að áralangri reynslu þess efnis og uppfyllir þau gæðaviðmið sem mennta- og menningarmálaráðuneytið gerir til fræðsluaðila. Þá hefur Mímir gæðavottunina EQM  (European Quality Mark) sem snýr að fræðslu og námi.

Starfsfólki Rio Tinto, með litla formlega skólagöngu að baki, stendur nú til boða að sækja sér framhaldsnám í Stóriðjuskólanum en Mímir heldur utan um námið í samstarfi við fyrirtækið og Fræðslusjóð. Námið er vottað af Menntamálastofnun og má meta til allt að 25 eininga á framhaldsskólastigi. Rio Tinto býður starfsfólki sínu að sækja námið á vinnutíma enda bæði fyrirtækinu í hag að efla þekkingu innbyrðis, sem og styrkja starfsfólk til þekkingaröflunar.

Námið miðast við fyrirtæki þar sem rafgreiningarker eru burðarásar í framleiðslunni og rafgreining, efnisvinnsla, steypun og kerfóðrun eru meðal þess sem þarf til framleiðslunnar. Tilgangur námsins er að auka hæfni starfsfólks til að sinna fjölbreyttum störfum í stóriðju, auka öryggi við vinnu, styrkja starfs- og samskiptahæfni, auka starfsánægju og gera vinnustaðinn eftirsóknarverðari, ásamt því að auka verðmætasköpun, auðvelda innleiðingu breytinga og styrkja samkeppnisstöðu stóriðjufyrirtækja. Í náminu er lögð áhersla á lærdómsferlið, að námsmenn auki hæfni sína í að afla og miðla upplýsingum og efli sjálfstraust sitt og lífsleikni.