Námskeið í Samfélagsfræðslu fyrir arabískumælandi nemendur fer fram um þessar mundir hjá Mími. Námskeiðið er í samvinnu við Vinnumálastofnun og ber heitið Landneminn. Hluti af námskeiðinu er heimsókn á Þjóðminjasafn Íslands, en það er hluti af því að binda saman sögu landsins og uppruna. Í samtali við Þórunni Grétarsdóttur, verkefnastjóra hjá Mími kemur fram að búið sé að leggja inn ákveðinn grunn hjá nemendum áður en þau fara á Þjóðminjasafnið. „Það er búið að fara yfir hluti eins og sögu, landafræði og lífsstíl Íslendinga í kennslustofunni. Það er mjög góður grunnur fyrir það að fara svo á Þjóðminjasafn Íslands og fá leiðsögn frá sérfræðingum þar. Þetta verður til þess að gæða námsefnið lífi og auka skilning á landi og þjóð,“ segir Þórunn.
Yfirgripsmikið og fræðandi námsefni
Námsefnið er viðamikið og nær yfir flesta þætti íslensks samfélags og þannig úr garði gert að fólk frá öðrum menningarheimum geti skilið betur gangverk samfélagsins. „Það er stórt skref að flytjast til nýs lands og það getur verið strembið að skilja samfélagið fram og til baka. Hlutir sem okkur Íslendingum finnast sjálfsagðir eru það mögulega ekki í augum annarra menningarheima. Lítið dæmi gæti verið hvernig við búum börnin okkar á leikskóla. Það þarf að gera ráð fyrir að þau hafi með sér ólíkan klæðnað vegna veðuraðstæðna og fleira sem fólk áttar sig ekki á, en okkur sem höfum alist hér upp er í blóð borið. Þannig að fræðslan er frá hinu smáa yfir í hið stærra eins og sögu og landafræði niður í hvar maður pantar tíma hjá Heilsugæslunni“, segir Þórunn til útskýringar.