Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (FA) á Íslandi í samstarfi við Norræna tengslanetið um nám fullorðinna (NVL) og CEDEFOP héldu tveggja daga ráðstefnu um leiðir til þess að gera hæfni einstaklinga sýnilegri meðal annars með raunfærnimati. Með orðinu raunfærni er átt við samanlagða færni sem einstaklingur hefur náð með ýmsum hætti, s.s. starfsreynslu, starfsnámi, frístundanámi, hefðbundnu námi o.s.frv. Alls voru um 250 þátttakendur á ráðstefnunni frá um 27 löndum.

Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri og fjöllistamaður flutti afar áhrifamikið erindi á ráðstefnunni þar sem hann sagði m.a.: „Raunfærnimatið gaf mér sjálfstraust. Þið sáuð tækifæri þegar ég sá aðeins ringulreið og skömm.“ Í kjölfarið á ráðstefnunni mætti Jón í viðtal í Síðdegisútvarpinu og sagði frá persónulegri reynslu sinni af raunfærnimatinu. „Þarna tóku þau saman öll gögn, menntun, námskeið, annað slíkt og reiknuðu það jafngildis eininga í framhaldsskóla. Ég fór að fá yfirsýn yfir eitthvað sem var í óskilgreindum hrúgum í huga mér og í lífi mínu.“

Viðtalið má nálgast neðst í fréttinni og hlusta frá mín. 49.30.

Í samtali við Kristínu Erlu Þráinsdóttur, náms- og starfsráðgjafa kom fram að margir deili sambærilegri sögu og Jóni. „Við í faginu sjáum fjölmarga einstaklinga sem eiga svipaða sögu. Eins og einstaklingar sem hafa unnið lengi á leikskóla eða við umönnun og gera sér ekki greini fyrir þeirri miklu hæfni og þekkingu þau hafa öðlast í starfi. Mímir er til að mynda með raunfærnimat í leikskólaliða, félagsliða, félagsmála- og tómstundaliði og stuðningsfulltrúa sem mun fara af stað núna í haust 2022. Nánari upplýsingar má nálgast hér: Raunfærnimat.

Í framhaldi kemur Kristín inn á að það sé mjög mikilvægt að fjalla um raunfærnimatið og gera fólki kleift að fá færni sína metna. Með raunfærnimati erum við að opna dyr fyrir fólki sem hefur öðlast færni með hinum með ýmsum hætti, s.s. starfsreynslu, starfsnámi, frístundanámi, skólanámi, félagsstörfum, búsetu erlendis og fjölskyldulífi. Raunfærnimat veitir staðfestingu á færni einstaklinga óháð því hvernig hennar hefur verið aflað. Niðurstöður raunfærnimats eru nýttar til að stytta nám eða sýna fram á og auka færni á vinnumarkaði.