Fyrirtæki leita í auknum mæli til Mímis um aðstoð við að takast á við áhrif tæknivæðingar.

Mímir býður fyrirtækjum/stofnunum upp á þjónustu sem miðar að því að aðstoða fyrirtæki/stofnanir til að takast á við áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar á starfsemi sína því ljóst er að ákveðin störf muni breytast mikið og jafnvel hverfa á næstu árum. Þjónustan er í formi ráðgjafar sem fer fram á vinnustaðnum. Stjórnendur fá ráðgjöf um hvernig þeir geta undirbúið breytingarnar sem framundan eru og stutt við starfsfólk sitt. Þá fær starfsfólk í umræddum störfum ráðgjöf sem miðast við að veita því stuðning til að takast á við breytingarnar. Oftar en ekki er um að ræða starfsfólk sem hefur stutta formlega skólagöngu að baki.

Ráðgjöfin snýr meðal annars að því að upplýsa starfsfólk, greina stöðu þess og leiðbeina við að finna leiðir til áframhaldandi færniuppbyggingar í samstarfi við fyrirtækið. Aukin tæknivæðing hefur áhrif á ýmis störf og kjósa sum fyrirtæki að efla starfsfólk til að mæta auknum og breyttum færnikröfum í starfi. Áherslur í ráðgjöfinni eru upplýsingamiðlun, fræðsla og leiðsögn sem miðar að því að leiðbeina einstaklingnum við að auka sjálfsþekkingu sína, þekkingu á námsmöguleikum og færni í að velja sér hentugar leiðir í símenntun.

Verkefnið hófst í fyrra í samstarfi við Landsbankann og hefur Mímir nú gert samstarfssamning við Orkuveitu Reykjavíkur.

 

Panta ráðgjöf