Mímir sótti áhugaverða vinnustofu sem haldin var á vegum Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar á Eiðum. Að auki voru fulltrúar frá Austurbrú sem er símenntunarmiðstöð Austurlands. Frá Studieskolen í Danmörku var komin Stine Lema sem að stýrði vinnustofunni, en Studieskolen hefur getið sér gott orð fyrir frumkvöðlastarf og þróunarvinnu í tungumálakennslu í Evrópu. Fyrir hönd Mímis fóru þau Sólborg Jónsdóttir, verkefnastjóri og Ragnar Snær sem kennir íslensku sem annað mál hjá Mími. Í samtali við Sólborgu kom fram að vinnustofan hefði verið afar gagnleg þar sem tungumálakennsla sé í sífelldri þróun. „Við höfum að markmiði í vinnunni samfélagslega nálgun í námsefnisgerð sem á að virkja nemendur í íslensku til að verða sjálfstæða málnotendur frá upphafi. Einnig leggjum við áherslu á að safna saman ólíkum kennsluaðferðum sem koma til móts við fjölbreyttan nemendahóp með ólíkar þarfir.“