Á hádegi í dag tóku gildi nýjar ráðstafanir til eflingar sóttvörnum innanlands í þeirri von að ná tökum á útbreiðslu COVID-19 smita. Fjöldi fólks sem kemur saman miðast nú við 100 fullorðna, fólki ber að hafa að minnsta kosti tvo metra á milli sín og bera andlitsgrímu sé þess ekki kostur, s.s. í flugvélum og ferjum. Mímir hefur nú þegar innleitt þessar nýju reglur í skólastarfið og á vinnustaðinn þannig að tryggt verði að aldrei komi fleiri en 100 fullorðnir í sama rými innan skólans. Eins að aldrei verði fleiri en svo í minni rýmum að ekki verði unnt að fylgja tveggja metra reglunni.
Enda þótt þessar hertu ráðstafanir gildi í tvær vikur eða til 13. ágúst hefur Mímir hafið vinnu við að undirbúa mögulegar breytingar á skólastarfi, komi til þess að stjórnvöld boði til enn hertari aðgerða í haust. Fylgst er náið með fyrirmælum yfirvalda og áhrifum þeirra. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag kennslu á komandi haustmisseri verða sendar út á næstunni.
Við vekjum athygli á því að móttöku Mímis hefur verið lokað tímabundið og mun Mímir einbeita sér að því að veita viðskiptavinum fjarþjónustu. Á vef Mímis má finna allar helstu upplýsingar um þjónustu Mímis og framboð náms. Fyrirspurnum er svarað í síma 5801800, í gegnum netfangið mimir@mimir.is og spjallgátt á vefsíðu Mímis, sem og Facebook síðu Mímis. Öllum fyrirspurnum er svarað eins fljótt og auðið er á opnunartíma skrifstofu.
Nú hefur aldrei verið mikilvægara að huga hvert að öðru og standa saman. Sammælumst um að virða tveggja metra regluna og fjöldatakmörkun, reynum að takmarka óþarfa samneyti og gætum að sóttvörnum. Við berum öll ábyrgð.
Gangi ykkur vel.