Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, heimsótti Mími í dag til að fagna upphafi nýs náms sem miðar að því að efla atvinnufærni fatlaðs fólks. Markmiðið var að hitta nemendur og fylgjast með hvernig kennslan færi af stað. Fleiri góðir gestir kíktu í heimsókn, þar á meðal Sara Dögg Svanhildardóttir frá Vinnumálastofnun, Helga Gísladóttir frá Fjölmennt og Hildur Betty Kristjánsdóttir frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sem hafa staðið að þróun námsins og verkefnisins í heild.
Kennsla samkvæmt nýrri námskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, „Smiðja 1-2,2 – Færni á vinnumarkaði,“ hófst í vikunni hjá Mími og símenntunarmiðstöðvum víðar um landið. Námið er afrakstur verkefnis á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins í samstarfi við Fjölmennt, Vinnumálastofnun og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Markmið námsins er að auka náms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk og undirbúa nemendur fyrir þátttöku á vinnumarkaði. Mímir og símenntunarmiðstöðvar annast fræðsluhluta verkefnisins en Vinnumálastofnun sér um starfþjálfunarhlutann sem veitir nemendum reynslu á vinnumarkaði samhliða náminu. Verkefnið er hluti af breytingum örorkulífeyriskerfisins sem félags- og vinnumarkaðsráðherra kynnti fyrr á árinu undir heitinu „Öll með“.
Við óskum nemendum góðs gengis á vegferð þeirra og þökkum ráðherra og fulltrúum samstarfsaðila kærlega fyrir heimsóknina.
Anna Björk Elkjær nemandi hjá Mími í viðtali á Stöð2
Guðmundur Ingi í heimsókn hjá Mími