Í dag hlaut fyrrverandi nemandi hjá Mími, Ómar F. Ahmed, viðurkenningu Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem Fyrirmynd í námi fullorðinna árið 2023. Viðurkenningin var veitt á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem fram fór í dag á Grand Hóteli undir yfirskriftinni Rík af reynslu – lærum hvert af öðru. Viðurkenningin er veitt fyrir bætta stöðu á vinnumarkaði og í námi og komu tilnefningar víðsvegar að, auk Ómars fengu Beata Justyna Bistula og Pétur Erlingsson viðurkenningu.

Um Ómar

Ómar er fyrrverandi nemandi í Menntastoðum hjá Mími. Hann er 24 ára en hann flosnaði upp úr framhaldsskóla þegar hann var yngri þegar hann missti áhugann á námi og hætti. Á síðasta ári kviknaði áhugi hans á því að verða kennari og eftir raunfærnimat hjá Mími hóf hann nám í Menntastoðum hjá Mími og útskrifaðist vorið 2023. Í dag stundar Ómar nám í Háskólabrú Keilis. Hann stefnir á kennaranám á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Á meðan Ómar stundaði nám í Menntastoðum ákvað hann einnig að fara í raunfærnimat fyrir stuðningsfulltrúa. „Ég vissi meira en ég hélt um það sem felst í mínu starfi og ég flaug í gegn“ eru orð Ómars um reynslu hans af raunfærnimati og endurspegla þau reynslu margra annarra sem hafa farið í gegnum það.

Ómar er einstaklega frambærilegur og býr að dýrmætri reynslu sem hann er tilbúinn að deila með öðrum. Við óskum Ómari innilega til hamingju með viðurkenninguna og hlökkum til að fylgjast með honum í framtíðinni.

Ársfundur Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins

Áherslur ársfundar Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins voru að þessu sinni að varpa ljósi á mikilvægi virkrar hæfnistefnu á Íslandi og ávinning fyrir bæði einstaklinga og atvinnulífið. Vitnað var til hæfnistefnu Evrópusambandsins þar sem fram kemur að besta fjárfesting til framtíðar sé fjárfesting í fólki og að hæfni og menntun sé drifkraftur samkeppnishæfni og nýsköpunar. Réttur til símenntunar skipti sköpum. Vinnumarkaðurinn breytist hratt og í mörgum Evrópulöndum er verið að endurmeta leiðir í þjálfun og menntun með inngildingu að leiðarljósi.

Fundurinn hófst á ávarpi Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra. Maj-Britt Hjördís Briem, stjórnarformaður Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og lögmaður hjá Samtökum atvinnulífsins fjallaði um færnimat til framtíðar. Berglind Rós Magnúsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, sagði frá yfirstandandi vinnu við endurskoðun laga um framhaldsfræðslu. Elisabeth Bøe, ráðgjafi í deild færniþróunar í atvinnulífinu hjá Stofnun háskólamenntunar og hæfni í Noregi fjallaði um verkefni og verkfæri til að efla nám fullorðinna og auka þátttöku í símenntun. Að lokum fjallaði Anna Kahlson, sérfræðingur hjá Fagháskólastofnuninni í Svíþjóð, um gildi skilvirks og sveigjanlegs framboðs á færni í tengslum við umbreytingar, endurmenntun og færniþróun í Svíþjóð.