Í síðasta mánuði tók Mímir á móti fjórum gestum frá samstarfsaðila sínum í Póllandi „NOVA Foundation“ sem hingað voru komnir til að segja frá starfi sínu í Póllandi og kynna sér starfsemi Mímis.

NOVA Foundation var stofnað árið 2009 og hóf formlega starfsemi árið 2014 með það markmið að berjast gegn félagslegri einangrun eldri borgara. Samtökin hrundu af stað fjölbreyttum verkefnum í þjónustumiðstöðvum í sínu nærumhverfi þar sem eldri borgurum gefst tækifæri til að læra listmálun, dans, tungumál o.fl. Að auki hjálpa samtökin flóttamönnum að kynna sér pólska tungu og menningu ásamt því að mennta kennara í umönnun barna með sérþarfir. Öll þessi þjónusta er þátttakendum að fullu gjaldfrjáls en þannig gera samtökin öllum kleift að taka þátt óháð fjárhagslegum aðstæðum.

Á Íslandi kynntu þeir sér starfsemi og námskeið Mímis fyrir innflytjendur og flóttamenn (Landneminn, Íslenska og atvinnulíf fyrir útlendinga) og heimsóttu MML (Miðja máls og læsis) til að kynna sér verkefnið Brúarsmiðir sem leitast eftir að byggja brú á milli fjöltyngdra barna, foreldra þeirra og starfsmanna skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Á mannréttinda- og Lýðræðisskrifstofu fengu þeir kynningu um mannréttindi og jafnréttismál á Íslandi og svo kynntust þau konum sem skipuleggja verkefni og viðburði hjá Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni.

Vonandi getum við notað þá þekkingu sem við höfum deilt með hverju öðru í framtíðinni og haldið áfram farsælu samstarfi.