Nemendur útskrifuðust úr staðnámi Menntastoða eftir annasaman vetur. Útskriftin er venju samkvæmt mikið fagnaðarefni fyrir bæði nemendur og kennara. Margir sem sækja sér nám í gegn um Menntastoðir eru að stíga langt út fyrir sinn þægindaramma og hafa jafnvel ekki verið í námi í langan tíma. Því eru margir sem koma sjálfum sér á óvart og útskrifast með láði. Dagurinn markar ákveðinn endapunkt og upphaf að nýjum tækifærum fyrir nemendur.

Stella Guðrún Arnardóttir sem ávarpaði samnemendur sína við útskriftina sagði m.a: „Ég var farin að halda að áður en ég kom í Mími að ég gæti ekki lært og ég væri greinilega ekki nógu gáfuð. Ég komst að því hér að það er alger þvæla. Ég er fluggáfuð, á auðvelt með að læra og á svo bjarta framtíð. Ég fékk loksins stefnu í lífinu og veit hvað ég ætla að verða þegar ég er orðin stór. Sjálfsöryggið og sjálfsmyndin mín breyttist svakalega. Ég ber höfuðið hátt og er stolt af sjálfi mér. Allt þetta er þessum skóla að þakka. Starfsfólk, námsráðgjafar og kennarar hjálpuðu mér og kenndu mér að læra. Sýndi mér mína styrkleika, hvöttu mig áfram og hrósuðu.“

Kennarar og starfsmenn Mímis þakka fyrir þessi fallegu orð og óska nemendum farsældar í komandi verkefnum.