Nemendum hjá Mími gefst kostur á því að sækja náms- og starfsráðgjöf samhliða náminu, sér að kostnaðarlausu. Við spurðum Maríu Stefaníu Stefánsdóttur um mikilvægi þess að nýta sér ráðgjöfina. „Það er auðvitað margt sem við náms- og starfsráðgjafar getum gert fyrir nemendur tengt náminu. Fyrst og fremst er kannski ágætt að hafa einhvern í sínu horni sem styður og hjálpar við að yfirstíga hindranir í námi og á jafnvel góð ráð í handraðanum,“ segir María og brosir.

Stuðningur við nemendur getur verið margskonar og er mjög persónubundinn, segir María. „Við erum að glíma við málefni allt frá því að meta fyrri hæfni t.d. fyrra nám eða reynslu úr atvinnulífinu til eininga. Styðja við nemendur sem eiga við námsörðugleika að stríða og leita leiða til þess að einfalda eða vinna með þau mál á einhvern uppbyggilegan hátt. Þá kemur það stundum til kastanna að endurstilla viðhorf fólks í sinn eigin garð og hjálpa þeim að sjá að þau geti lært og styðja þau í að öðlast sjálfstraust í námi. Margir sem koma hingað í Mími hafa sumir hverjir misst trúna á eigin getu í námi, sem vill einmitt svo skemmtilega til að þeir öðlast nær undantekningarlaust aftur hér hjá okkur.“ Spurð nánar út í það segir María: „Þegar þú ferð að sjá árangur, ná taki á efninu með góðri hjálp kennara og náms- og starfsráðgjafa ferð þú að sjá að þú getur þetta. Þá fer námið að ganga betur og þá er eins og nemendur komist á flug.“

Framtíðarmúsíkin ekki síður mikilvæg

Hlutverk náms- og starfsráðgjafa er meðal annars að aðstoða nemendur við að skipuleggja framtíðina námslega séð. „Vissulega er það eitt af okkar hlutverkum. Við getum leiðbeint og fundið leiðir. Jafnvel náum við stundum að stytta leiðina að settu marki. Stundum er það óljóst hvert skal stefna, stundum er það ljóst en það vantar sjálfstraustið til þess að þora. Langa í lögfræði eða húsasmíðar en finnast maður ekki eiga erindi. Þá er mikilvægt að veita ráðgjöf, stuðning og leiða það til lykta hvort það sé nú raunin, en langsamlega flestir geta gert það sem þeim langar og bera hug til. Það er líka svo miklu skemmtilegra að læra það sem manni langar til því þá hvetur áhuginn mann áfram og maður gleypir í sig námsefnið.“ Það er ljóst að María er aftur komin inn á mikilvægi þess að trúa á sig og vita að maður getur lært og náð árangri. Hver er galdurinn? „Galdurinn er enginn galdur. Það er gott kennarateymi, ráðgjöf hjá okkur náms- og starfsráðgjöfum og svo auðvitað gott og þægilegt námsumhverfi. Aðal málið eru samt samnemendur og við höfum séð það aftur og aftur að félagastuðningurinn er gífurlega mikilvægur. Hann færðu hér,“ segir María að lokum.

 

Ráðgjöf má panta hér.