Undanfarna mánuði hefur hjá Mími farið fram vinna við gerð námskrár fyrir samfélagstúlka, byggða á hæfnigreiningu starfsins sem Mímir hlaut styrk til að framkvæma frá Þróunarsjóði innflytjendamála. Efling, Starfsafl og Landsmennt styrktu gerð námskrárinnar.  

Fyrstu drög að námskránni liggja nú fyrir og voru þau kynnt hagsmuna- og samstarfsaðilum síðastliðinn föstudag. Fjölmennt var á kynningarfundinum og hlutu drögin að námskránni mjög góðar undirtektir. Mikil þörf hefur verið á samræmingu og framboði á þjálfun fyrir samfélagstúlka hér á landi og þykir námskráin mikilvægt skref í rétta átt.     

Markmiðið með námskránni er fyrst og fremst að auka hæfni og menntun samfélagstúlka, sem og stuðla að því að þekking og reynsla innflytjenda verði metin, þeim sjálfum og samfélaginu til gagns. Við gerð námskrárinnar var sérstaklega horft til markhóps framhaldsfræðslunnar en leitast verður við að fá námskrána vottaða af Menntamálastofnun.  

Á kynningarfundinum var farið yfir helstu efnisatriði námskrárinnar og hagsmuna- og samstarfsaðilum gefinn kostur á að bera fram athugasemdir og tillögur sem nýttar verða áfram við frekari uppbyggingu námskrárinnar.