Í síðustu viku hélt Mímir-símenntun námskeiðið Kennslufræðileg færni íslenskukennara – með áherslu á öryggi, gæði og græna og stafræna hæfni á heilbrigðissviði. Námskeiðið var haldið í tengslum við BRICK-verkefnið sem er Evrópuverkefni styrkt af Erasmus+. Það miðar að því að efla færni erlends starfsfólks á heilbrigðissviði og í öðrum starfsgreinum, meðal annars með starfstengdri tungumálakennslu og áherslu á græna og stafræna hæfni.

Markmið námskeiðsins var að efla kennara í að tengja íslenskukennslu við faglegt samhengi heilbrigðisstarfa. Lögð var áhersla á gæði og öryggi í samskiptum og vinnubrögðum, auk nýrrar færni sem snýr að grænum viðmiðum og stafrænni hæfni í kennslu og starfsumhverfi heilbrigðisgeirans.

Námskeiðið, sem stóð yfir í 20 kennslustundir, tók til fjölbreyttra viðfangsefna, meðal annars:

  • Aðferðir til að tengja tungumálanám við raunverulegar aðstæður á vinnustöðum í
    heilbrigðisþjónustu
  • Notkun stafrænna verkfæra í kennslu og verkefnavinnu
  • Umhverfisvitund og græn sjónarmið í kennslu og starfsháttum
  • Öryggi og gæði í kennslufræðilegum útfærslum fyrir heilbrigðisgeirann

Þátttakendur voru íslenskukennarar sem deildu reynslu sinni og þróuðu nýjar aðferðir í kennslu með það að markmiði að styrkja námsmenn til starfa á heilbrigðissviði. Að loknu námskeiðinu fengu þeir viðurkenningarskjal fyrir þátttöku sína.

Mímir-símenntun leggur áherslu á að styðja kennara og fagfólk með fjölbreyttum námsleiðum og þróunarverkefnum sem efla bæði nemendur og kennara til framtíðar.