Fjarfundabúnaður er orðinn mikilvægt tæki í kennslu í dag. Því er nauðsynlegt að búnaður og hugbúnaður skili hnökralausum samskiptum rétt eins og nemendur væru staddir í skólastofunni. En tenging er á milli kennslukerfisins Innu og búnaðarins. „Við viljum skipa okkur í fremstu röð meðal fræðslufyrirtækja. Með búnaðinum frá Advania er tryggt að bæði nemandi og kennari nái góðum tengslum rétt eins og þeir væru staddir í sama rýminu,“ segir Sólveig Hildur Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mímis. Tæknilausnin frá Advania nýtist nú þegar fjölda nemenda í viku hverri þar sem jafnvel bekkir eru blandaðir í stað- og fjarkennslu. „Búnaðurinn skilar þeim gæðum að það heyrist vel í öllum sem taka til máls, bæði kennurum og samnemendum hvar sem þeir eru staddir. Við höfum upplifað að nemendur og kennarar eru mjög ánægðir með tæknina og námið skilar sér vel,“ segir Sólveig Hildur.

Fleiri geta nýtt sér námið

Markmið Mímis er að námskeið og kennsla sé aðgengileg fyrir alla og innleiðing á vönduðum fjarfundabúnaði skiptir þar sköpum. „Við viljum auðvelda fólki, sem jafnvel stundar nám meðfram vinnu, að sinna náminu þar sem það hentar best án þess að það komi niður á gæðum. Samskipti kennara og nemenda eru lykilatriði og við teljum að með þessari fjárfestingu hafi okkur tekist að færa okkur töluvert til framtíðarinnar í fjarkennslu,“ segir Sólveig Hildur.

Þarfir markaðarins eru síkvikar

Í samtali við Sólveigu Hildi kemur fram að Mímir sé síður en svo hættur að færa sig til framtíðar og vinna í takt við breytta tíma. „Innleiðingu á fjölbreyttum kennsluaðferðum og tækni er hvergi nærri lokið og lýkur henni í raun aldrei. Þessi vinna sem við erum í núna tekur auðvitað tíma og má segja að síðustu misseri hafi breytt landslaginu hratt. Þörfin fyrir góðan fjarfundabúnað við kennslu sé mikil og séu gæði í fjarkennslu orðin hluti af ímynd fræðslufyrirtækja,“ segir Sólveig Hildur. „Eitt er að fjárfesta í tæknibúnaði en annað er að innleiða þá þekkingu sem þarf til að búnaðurinn sé svo notaður sem skyldi og þjóni þeim tilgangi sem lagt var upp með. Við erum svo heppin að geta fylgt breytingunum vel eftir í góðu samstarfi við nemendur, kennara og starfsfólk Mímis. Það er lykillinn að því að innleiðingin takist,“ segir Sólveig Hildur.

Samtal hagsmunaaðila veitir skýra sýn

Í febrúar fór fram umfangsmikil stefnumótunarvinna hjá Mími þar sem öllum hagaðilum var  boðið að borðinu, nemendum kennurum og viðskiptavinum Mímis. „Við leituðum til ólíkra samstarfsaðila okkar til þess að fá skýra sýn á það sem við erum að gera vel og það sem við getum gert enn betur. Samtalið skilaði okkur góðum upplýsingum um hvert við viljum stefna og er þetta mikilvægt skref á þeirri vegferð,“ segir Sólveig að lokum.

Mímir nýtir fjarfundabúnað from advania on Vimeo.