Rannís stóð fyrir kynningu á menntaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar sem nefnist Nordplus í Norræna húsinu í gær. Nordplus er stærsta menntaáætlun Norðurlandanna og inniheldur alls fimm undiráætlanir á leik-, grunn-, framhaldsskólastigi, fullorðinsfræðslu og á háskólastigi. Þá er áætlun á sviði tungumála sem vinnur þvert á skólastigin. 

Þróunarverkefni mikilvægur þáttur í starfsemi Mímis

Unnið var að ellefu þróunarverkefnum hjá Mími árið 2021 með fyrirtækjum og stofnunum sem styrkt eru af opinberum aðilum, aðilum vinnumarkaðarins, Erasmus+ og/eða Nordplus. Áhersla var lögð á verkefni sem miða að því að efla þekkingu og færni á ýmiss konar tækni sem snertir nám og kennslu.

Meðal verkefna sem unnið var í með aðstoð Nordplus var verkefni sem ber nafnið Be Digital - Social Media Skills for 50+. Verkefnið sneri að því að styrkja stöðu starfsfólks, 50 ára og eldri, á vinnumarkaði með tilliti til stafrænnar hæfni. Um er að ræða samstarfsverkefni fjögurra landa: Íslands, Noregs, Lettlands og Litáens. Unnið var að því að hanna námskeið fyrir hópinn sem vinnustaðir geta boðið starfsfólki sínu að sækja sem og stéttarfélög félagsmönnum sínum en markmiðið er að auka færni í notkun samfélagsmiðla að starfslokum og eftir þau. Verkefninu lauk með rafrænni ráðstefnu þar sem fjölmargir fluttu erindi tengt viðfangsefni verkefnisins. Nordplus, menntaáætlun norrænu ráðherranefndarinnar styrkti verkefnið.